Enski boltinn

United hrökk í gang í síðari hálfleik

Park var á skotskónum hjá United í dag
Park var á skotskónum hjá United í dag NordicPhotos/GettyImages

Manchester United heldur stöðu sinni á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að liðið burstaði Blackburn 4-1 í dag eftir að hafa verið undir á heimavelli í hálfleik. West Ham vann gríðarlega mikilvægan sigur á Middlesbrough á heimavelli 2-0 og Hermann Hreiðarsson fiskaði vítaspyrnu sem tryggði Charlton mikivæg 3 stig í botnbaráttunni.

Matt Derbyshire kom Blackburn yfir 1-0 gegn United í dag en í síðari hálfleik opnaðist fyrir allar flóðgáttir og heimamenn settu fjögur mörk. Scholes, Park, Carrick og Solskjær skoruðu mörk United.

Bobby Zamora og Carlos Tevez tryggðu West Ham mikilvæg stig í fallbaráttunni þegar þeir skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik í sigrinum á Middlesbrough. David James náði ekki að slá met David Seaman yfir að halda marki sínu hreinu þegar hann fékk á sig mark á lokamínútunni í 1-1 jafntefli Fulham og Portsmouth. James og Seaman hafa báðir haldið hreinu í 141 leik í úrvalsdeildinni en James verður að bíða lengur eftir að slá met Arsenal markvarðarins fyrrverandi.

Manchester City vann mikilvægan sigur á Newcastle á útivelli 1-0 með marki frá Emil Mpenza á 80. mínútu. Bolton lagði Sheffield United með marki Kevin Davies á 80. mínútu og þá vann Charlton dýrmætan 1-0 sigur á Wigan með marki Darren Bent úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok. Hermann Hreiðarsson var í liði Charlton í dag, þrátt fyrir meiðsli og fiskaði vítið sem réði úrslitum.

Sigur Charlton í dag þýðir að nú er liðið aðeins einu stigi frá því að ná Sheffield United sem situr í 17. sætinu í deildinni - sætinu sem bjargar liðunum frá falli. West Ham fór í 26 stig og er því fimm stigum frá öruggu sæti en Watford er nær örugglega fallið með aðeins 20 stig.

Manchester United hefur 78 stig á toppi deildarinnar og Chelsea er í öðru með 69 stig og á leik til góða gegn botnliði Watford í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×