Erlent

Of mörg fríblöð á danska markaðinum

Í danska fríblaðastríðinu hefur því lengi verið spáð að Dato myndi fyrst heltast úr lestinni.

Steen Breiner, fyrrverandi ritstjóri Datos, sagði hins vegar í desember á síðasta ári að það væri engin lokadagsetning á Dato..

Þrátt fyrir þessi orð ritstjórans í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í fyrra, varð lokadagsetning Datos 19. apríl 2007.

Útgáfufélagið Det Berlingske Officin telur engan markað fyrir fríblöð í Danmörku sem dreift er inná heimili, og mun einbeita sér að útgáfu fríblaðsins Urban, sem dreift er í umferðinni.

Frands Mortensen, prófessor í upplýsinga- og fjölmiðlafræði, segir of mörg fríblöð vera í Danmörku. „Það er sennilega pláss fyrir eitt fríblað í umferðardreifingu og kannski eitt enn sem dreift er inná öll heimili. En það er ekki pláss fyrir fleiri."

Áfram verður því hart barist á fríblaðamarkaðnum í Danmörku. Nyhedsavisen, sem er í eigu sömu aðila og Stöð 2, stendur vel að vígi, að mati fjölmiðlaprófessorins.

„Það er svo líkt stóru dagblöðunum að fólk gæti sagt upp áskrift að þeim og látið Nyhedsavisen duga. Og ef það heppnast að einhverju leyti mun Nyhedsavisen hafa veruleg áhrif á fjárhag gömlu dagblaðanna, bæði með því að stela frá þeim auglýsingatekjum og áskriftartekjum. Ef þetta heppnast gæti Nyhedsavisen gengið vel."

Hann segir hins vegar að dreifingin mætti vera betri. „Ég bý í vel stæðu hverfi innan um fólk sem smellpassar í markhóp Nyhedsavisens. Frá því að blaðið hóf göngu sína hef ég fengið það tvisvar sinnum. Ekki tvisvar í viku, heldur tvisvar sinnum allan þennan tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×