Erlent

Helmingur fátækra brátt í Asíu

Gömul kona dregur vagn í borginni Jiujiang skammt frá Jangtse-fljótinu.
Gömul kona dregur vagn í borginni Jiujiang skammt frá Jangtse-fljótinu. MYND/AFP

Fimmtán prósent Asíubúa, 600 milljónir manna, lifa á minna en 63 krónum daglega, sem jafngildir einum Bandaríkjadal.

Þróunarbanki Asíu (ADB) greindi frá þessu í gær við upphaf tveggja daga ráðstefnu á vegum Alþjóðlegu þróunarrannsóknarstofnunarinnar (IFPRI).

Þrátt fyrir gífurlegan hagvöxt undanfarna þrjá áratugi eru hungur og fátækt enn útbreidd í þessari fjögurra milljarða manna heimsálfu.

„Milljónum hefur verið hjálpað upp úr fátækt, en milljónir sitja enn eftir, sérstaklega í sveitahéruðum,“ sagði Joachim von Braun, forstöðumaður IFPRI.

Talið er að árið 2015 verði helmingur fátækra íbúa heimsins í Asíu og benda bestu spár til að þrír fjórðu muni búa í sveitahéruðum. Á sama tímabili er því spáð að Asía muni leggja til nærri helming af vergri landsframleiðslu í heiminum samkvæmt Þróunarbanka Asíu.

„Það er kaldhæðnislegt að ótrúlegur hagvöxtur Austur-Asíu, sem byggðist á miklum gróða úr landbúnaðargeiranum, er nú að stuðla að því að auka tekjuójöfnuð milli þeirra sem búa í borgum og þeirra sem búa í sveitum,“ sagði C. Lawrence Greenwood, aðstoðarforstjóri IFPRI.

Setja þarf aukinn kraft í atvinnusköpun á landsbyggðinni sem er lykilatriði í að draga úr fátækt að sögn Braun sem segir leiðir til þess liggja í nýsköpun í tækni og stofnanaumhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×