Erlent

Finnski fjöldamorðinginn lést á sjúkrahúsi

MYNd/AP

Nemandinn sem gekk berserksgang í menntaskóla í bænum Tuusula í suðu Finnlandi í dag lést af völdum skotsárs sem hann veitti sjálfum sér. Pilturinn sem var 18 ára gamall, myrti sjö nemendur og einn kennara áður en hann skaut sjálfan sig.

Finnar eru felmtri slegnir yfir atburðunum og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands sendi fyrr í kvöld samúðarkveðju til kollega síns, Terja Halonen.

Lögregla nafngreindi mannin fyrr í kvöld og hét hann Pekka Eric Auvinen. Hann var ekki á sakaskrá og hafði aldrei hótað samnemendum sínum eða kennurum við skólann.

Lögreglan náði sambandi við morðingjann 11 mínútum eftir tilkynningu um árásina klukkan 11:44 að staðartíma í morgun, eða 9:44 að íslenskum tíma. Honum var skipað að gefast upp, en svaraði með kúlnaregni að lögreglu.

Lögreglan segir morðvopnið hafa verið .22 kalibra skammbyssu sem pilturinn fékk leyfi fyrir 19. október síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×