Erlent

Vilja knýja fram íbúakosningu um reykingabann

Hamborg í Þýskalandi.
Hamborg í Þýskalandi. MYND/365

Kráareigendur í Hamborg í Þýskalandi reyna nú að knýja fram sérstaka íbúakosningu um fyrirhugað reykingabann á veitingastöðum þar í borg. Undirskriftalistum hefur verið komið fyrir á rúmlega tvö hundruð veitingastöðum en veitingamenn þurfa að minnsta kosti tíu þúsund undirskriftir.

Veitingamenn hafa nú tvo mánuði til að safna undirskriftum en eftir þann tíma rennur út sá frestur sem þeir hafa til að skila þeim inn.

Reykingabannið í Hamborg tekur gildi um næstu áramót. Samkvæmt því verður framvegis óheimilt að reykja innandyra á veitingahúsum nema í sérstöku reykherbergi. Eigendur minni veitingastaða hafa kvartað sáran yfir lögunum þar sem þeir eiga erfiðara um vik að koma upp reykherbergi nema með ærnum tilkostnaði. Reykingar verða þó áfram leyfðar á einkaklúbbum.

Veitingamenn hafa þegar lýst því yfir að þeir hyggjast breyta veitingastöðum sínum í einkaklúbba nái þeir ekki að safna nægilega mörgum undirskriftum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×