Erlent

Réttað yfir fimmtán fyrrum samstarfsmönnum Saddams

Réttarhöld yfir fimmtán fyrrum meðlimum ríkisstjórnar Saddam Husseins hefjast í Bagdad í Írak í dag. Mennirnir eru ákærðir fyrir aðild að fjöldamorðum sem áttu sér stað þegar Sjíta múslimar í suðurhluta Íraks gerðu uppreisn árið 1991. Meðal þeirra sem fara fyrir dóminn er Ali Hassan al-Majeed, frændi Saddams, en hann hefur nú þegar verið dæmdur til dauða fyrir voðaverk unnin gegn Kúrdum árið 1988.

Talið er víst að réttarhöldin muni vekja upp sárar minningar fyrir Sjíta múslima en uppreisn þeirra hófst aðeins nokkrum dögum eftir Bandaríkjamenn hröktu hersveitir Saddams úr Kúveit. Margir þeirra töldu að Bandaríkjamenn hefðu svikið sig þegar þeir ákváðu að veita uppreisninni ekki lið.

Fjölmargir Sjíta múslimar létu lífið þegar hersveitir Saddams brutu uppreisnina á bak aftur. Í gær greindu lögregluyfirvöld í borginni Basra að fundist hefði fjöldagröf með að minnsta kosti 15 líkum ungra Sjíta múslima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×