Erlent

Mikill olíuleki í Norðursjó

Olíuborpallurinn í Norðursjó sem um ræðir.
Olíuborpallurinn í Norðursjó sem um ræðir. MYND/AP

Talið er að allt að 3.840 rúmmetrar af hráolíu hafi lekið í Norðursjó við olíuborpall á Statfjord-olíuleitarsvæðinu í morgun. Borpallurinn er sagður í eigu StatoilHydro.

Mengunarvarnir norska ríkisins flugu yfir svæðið til þess að meta olíulekann og hefur norska ríkisútvarpið eftir talsmanni stofnunarinnar að þetta líti út fyrir að verða næstmesti olíuleki í sögu Noregs. Hann jafngildir því að lekið hafi úr rúmlega 24 þúsund olíutunnum í hafið.

Slysið varð þegar verið var að dæla olíu frá borpallinum á skip og berst olíuflekkurinn nú í norðurátt á Norðursjó. Útreikningar sérfræðinga í Noregi sýna að olían muni ekki ná vesturströnd Noregs í fyrstu en útreikningarnir ná til hádegis á föstudag. Óvíst er hvaða áhrif olíulekinn hefur á lífríkið í Norðursjó og við Noreg.

Mesti olíuleiki í sögu Noregs var fyrir 30 árum en þá láku 12 þúsund rúmmetrar af olíu við Bravo-olíuleitarsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×