Erlent

Biður hóstandi um hjálp

Biðst hjálpar Þýski verkfræðingurinn sem er í haldi talibana.
Biðst hjálpar Þýski verkfræðingurinn sem er í haldi talibana.

Þýskur verkfræðingur, sem talibanar í Afganistan hafa haldið í gíslingu í meira en mánuð, birtist í myndbandsupptöku sem sýnd var í afgönsku sjónvarpi í gær. Í upptökunni biðst hann hjálpar, hóstandi og haldandi fyrir brjóstið.

Þá létu 13 manns lífið í árásum í Suður-Afganistan í gær. Þar af voru tíu afganskir öryggisverðir sem fylgdu birgðaflutningalest sem var að flytja varning fyrir fjölþjóðlega NATO-herliðið í landinu.

Gíslinn sem einkarekna Tolo TV-stöðin sendi út myndir af í gær var annar tveggja Þjóðverja og fimm Afgana sem numdir voru á brott í Wardak-héraði í Mið-Afganistan þann 18. júlí síðastliðinn. Hinn þýski gíslinn fannst skotinn til bana þann 21. júlí. Einum afganska gíslinum tókst að flýja.

"Ég er fangi talibana," sagði maðurinn á upptökunni og kvaðst heita Rudolf Blechschmidt. "Við lifum í fjöllunum, mjög hátt uppi við mjög slæmar aðstæður. Hjálpið okkur!" sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×