Erlent

Risi bjargar höfrungum í Kína

Bao Xishun með höndina uppi í munni og ofan í maga eins höfrungsins.
Bao Xishun með höndina uppi í munni og ofan í maga eins höfrungsins. MYND/AP
Hávaxnasti maður heims bjargaði í dag lífi tveggja höfrunga sem höfðu gleypt plaststykki. Bao Xishun var kallaður til þar sem hann var sá eini sem hafði nógu langar hendur til þess að teygja sig niður í maga höfrunganna. Bao er 2,36 metrar á hæð og hendurnar á honum hvor um sig 1,06 metrar. Höfrungarnir braggast vel eftir inngrip Baos.

Eftir að dýralæknum hafði mistekist að ná plastinu með töngum var náð í Bao, sem býr í kínverska héraðinu Innri-Mongólíu. Þar býr hann og starfar sem hirðir, auk þess að taka þátt í sýningum og leika í auglýsingum. Bao er skráður í heimsmetabók Guinness sem hávaxnasti maður í heimi. Hann tók hraustlegan vaxtarkipp á unglingsárunum sem entist í 7 ár. Læknar kunna enga skýringu á ofurvexti hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×