Erlent

Leitar logandi ljósi að raðmorðingja

Breska lögreglan leitar nú logandi ljósi að raðmorðingja sem hefur myrt fimm vændiskonur nærri Ipswich á Englandi. Óttast er að ódæðismaðurinn fremji annað morð áður en lögregla hefur hendur í hári hans.

Lögreglumenn eru í kapphlaupi við tímann þar sem þeir fínkemba landsvæði nærri A 14 hraðbrautinni við Ipswich í Austur-Anglíu. Nakið lík Gemmu Adams, sem var tuttugu og fimm ára, fannst í tjörn nærri hraðbrautinni 2. desember síðastliðinn. Lík Taníu Nicol, sem var nítján ára, fannst síðastliðinn föstudag í tjörn skammt frá og á sunnudaginn fannst Anneli Alderton myrt á engi í næsta nágrenni.

Lík Annettte Nicholls og Paulu Clennell fundust síðan í gær eftir að vegfarandi gekk fram á þau nærri þeim stað þar sem hinum þremur fórnarlömbum ódæðismannsins hafði verið komið fyrir.

Allar fimm voru þær vændiskonur. Sky-fréttastofan greinir frá því að vændiskonur í næsta nágrenni hafi farið að ráðum lögreglu og haldið sig heima liðna nótt. Það eru þó ekki aðeins vændiskonur í Ipswich og næsta nágrenni sem óttast um líf sitt. Íbúar eru óttaslegnir og varir um sig.

Morðin hafa vakið óþægilegar minningar um raðmorð sem framin voru í Yorkshire á Englandi á áttunda áratug síðustu aldar. Peter Sutcliffe játaði þá á sig morð á þrettán konum og voru flest fórnarlömbin vændiskonur.

Alastair McWhirter, yfirlögregluþjónn í Suffolk, segir muninn nú að svo mörg morð hafi verið framið á svona stuttum tíma. Morðin í Yorkshire hafi verið framin á lengri tíma.

Lögregla segist ekki útiloka neitt í rannsókn sinni sem stendur. Heimildir breskra miðla herma að jafnvel sé talið að fleiri en einn ódæðismaður séu að verki í sameiningu.

Talsmaður rannsóknarteymisins segir margt benda til þess að konurnar hafi þekkt morðingja sinn sem hafi verið fastakúnni hjá þeim. Því gæti verið að vændiskonur í Ipswich og næsta nágrenni þekki ódæðismanninn eða -mennina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×