Erlent

Ísraelar virða enn vopnahléð á Gaza

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, tekur í höndina á Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hann er nú í opinberri heimsókn í Þýskalandi
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, tekur í höndina á Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hann er nú í opinberri heimsókn í Þýskalandi MYND/AP

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í kvöld að Palestínumenn hefðu skotið um 20 eldflaugum frá Gaza yfir til Ísraels, en Ísraelar hefðu ekki í hyggju að svara fyrir sig. Vopnaðir hópar á Gaza segjast telja nýlegar árásir Ísraelshers gegn skæruliðum á Vesturbakka Jórdanar brot á vopnahlénu, þó það sé einungis í gildi á Gaza.

Olmert sagði hins vegar að æ erfiðara væri að verða fyrir Ísraelsmenn að svara ekki fyrir sig þegar eldflaugum væri skotið yfir viðmiðunarlínur. Alþjóðasamfélagið hefur vonast til að vopnahléð sem komst á þann 26. nóvember, gæti orðið upphafið að friðarviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna.

Olmert var einnig spurður um norðurlandamæri Ísraels, þar sem landið liggur að Líbanon, í fyrstu heimsókn sinni til Þýskalands sem forsætisráðherra landsins. Þá sagði hann að herþotur Ísraela myndu halda áfram að fljúga yfir Líbanon. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög, enda brjóta flugferðirnar gegn vopnahléssamkomulagi öryggisráðsins frá í ágúst. Olmert sagði að flugferðirnar væru nauðsynlegar til að staðfesta eða afsanna njósnaheimildir þess efnis að Hisbollah héldi áfram að smygla vopnum. Orðróm þessa efnis sagðist hann hafa fengið staðfestan með flugi herþotnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×