Erlent

Erfiður róður framundan hjá Bush

Landslagið í bandarískum stjórnmálum er breytt eftir niðurstöður þingkosninga þar í gær. Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum segja ljóst að Bandaríkjaforseta muni reynast erfitt að koma stefnumálum sínum í gegnum þingið og staða hans verði allt önnur en síðustu sex árin.

 

Demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeildinni af repúblíkönum, líkt og spáð var fyrir kosningarnar. Næsti forseti fulltrúadeildarinnar verður Nancy Pelosi, fyrsta konan sem gegnir því embætti. Auk þess vekur athygli að Keith Ellison, nýkjörinn fulltrúadeildarþingmaður demókrata, er fyrsti músliminn sem er kosinn á þing í Bandaríkjunum.

Spennan er hins vegar enn mikil í baráttunni um öldungadeildina. Demókratar hafa náð fjórum sætum þar af þeim sex sem þeir þurfa til að ná meirihluta. Frambjóðendur demókrata hafa forskot í báðum fylkjunum sem eftir eru: Montana og Virginíu en svo mjótt er enn á munum að brugðið gæti til beggja vona.

Útlit er fyrir endurtalningu í Virginíu þar sem munar innan við einu prósenti. Ætla má að kærumál fylgi í kjölfarið hvernig sem fer og því gæti svo farið að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir fyrr en í desember. Því alls óvíst hvor flokkurinn nær meirihluta. Enn er talið í Montana þar sem demókratar hafa naumt forskot. Ólíklegt er að telja þurfi að nýju þar.

Hilary Clinton náði endurkjöri sem öldungadeildarþingmaður fyrir New York með miklum yfirburðum. Repúblíkanar misstu á samta tíma lykilmenn á borð við Rick Santorum, öldungadeildarþingmann fyrir Pennsylvaníu.

Joseph Lieberman, varaforsetaefni demókrata árið 2000, hélt öldungadeildarþingsæti sínu í Connecticu en hann bauð sig fram sem óháður eftir að hafa tapað í forkosningum demókrata í sumar. Hann hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1988.

Lieberman er annar tveggja óháðra öldungadeildarþingmanna og hafa þeir báðið heitið demókrötum stuðningi.

Repúblíkanar biðu þó ekki ósigur alls staðar og hafa einhverjir þeirra glaðst við fréttir af því að tortímandinn Arnold Schwarzenegger hélt ríkisstjóraembættinu í Kaliforníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×