Erlent

Búist við óeirðum eftir aftöku

Írakar fylgjast grannt með fréttum af Saddam Hussein. Saddam sagðist í vikunni fúslega fórna sér fyrir Írak. Á morgun hefst í Írak þriggja daga fórnarhátíð múslima.
Írakar fylgjast grannt með fréttum af Saddam Hussein. Saddam sagðist í vikunni fúslega fórna sér fyrir Írak. Á morgun hefst í Írak þriggja daga fórnarhátíð múslima.

Bandaríska herliðið í Írak býr sig undir óeirðir í kjölfar aftöku Saddams Hussein fyrrverandi Íraksforseta. Saddam hefur verið fangi Bandaríkjamanna síðan hann var handtekinn í desember 2004 en í gær var hann afhentur íröskum stjórnvöldum.

Á þriðjudaginn staðfesti áfrýjunardómstóll dauðadóminn yfir Saddam og í gær sögðu írösk stjórnvöld að engar tafir yrðu á fullnustu dómsins. Bandaríkjamenn reiknuðu með að hann yrði í síðasta lagi tekinn af lífi í dag.

Svo virðist sem allt kapp sé lagt á að Saddam verði líflátinn áður en þriggja daga fórnarhátíð múslima hefst á morgun, en í vikunni sendi Saddam frá sér bréf þar sem hann sagðist fúslega fórna sér fyrir Írak.

Hálfbræður Saddams Hussein heimsóttu hann í fangelsið í gær og hann afhenti þeim erfðaskrá sína. Þá sögðust lögfræðingar Saddams hafa fengið beiðni frá Bandaríkjamönnum um að ná í persónulegar eigur hans í fangelsið.

Dauðadóminn hlaut Saddam vegna morða á 148 sjíum í borginni Dujail árið 1982. Auk Saddams er búist við að hálfbróðir hans, Barzan Ibrahim, verði tekinn af lífi, en hann var yfirmaður leyniþjónustunnar þegar fjöldamorðin voru framin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×