Erlent

Vírusar leggist á síma og bílvélar

Vírusar verða ekki bundnir við tölvur í framtíðinni, heldur gætu þeir einnig átt eftir að leggjast á síma og bílvélar svo fátt eitt sé nefnt. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skýrslu, sem öryggisdeild IBM framkvæmdi og verður birt í dag. Gögnin sem skýrslan byggist á koma meðal annars frá stórum viðskiptavinum fyrirtækisins, stjórnvöldum í Bandaríkjunum og athugunum tvö þúsund öryggisráðgjafa IBM. Í skýrslunni kemur fram að með aukinni netvæðingu símafyrirtækja um allan heim aukist verulega líkurnar á því að farsímanotendur verði fyrir barðinu á óprúttnum tölvuþrjótum. Þá er einnig bent á að verulegar líkur séu á að vírusar muni finnast í bílum innan skamms enda innihaldi nýir bílar að jafnaði um sextíu megabæt af hugbúnaði. Nærri 30 þúsund nýir vírusar bættust í flóru þeirra sem fyrir voru á árinu 2004. Til samanburðar var fjöldi nýrra vírusa meira en sexfalt minni árið 2002. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að nærri sex prósent allra þeirra 147 milljarða tölvupósta sem IBM skoðaði á árinu 2004 voru sýkt af tölvuvírus. Þetta er tólf sinnum hærra hlutfall en árið 2002 þegar aðeins ein af hverjum tvö hundruð tölvupóstsendingum innihélt vírus.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×