Erlent

Stærsta farþegavél sögunnar

Airbus A380 farþegaflugvélin verður frumsýnd við hátíðlega athöfn í dag í Toulouse í Frakklandi og muna marka tímamót því hún er stærsta farþegaflugvél sögunnar. Vélin er sett Boeing 747 vélinni til höfuðs og tekur þriðjungi fleiri farþega í sæti en keppinauturinn og hefur fimm prósent meira flugþol. Talsmenn Airbus segja að þetta geri þeim kleift að bjóða 20 prósent lægri fargjöld en Boeing. Þeir viðurkenna þó að hönnun og bygging vélarinnar hafi verið þrautaganga, kostnaður hafi farið fram úr áætlun og vélin sé þyngri en til stóð. Það hefur kostað Airbus um 120 milljarða króna að framleiða vélina sem vegur tæp 280 tonn. Að sögn talsmanna Airbus hefur sala á vélinni farið fram úr björtustu vonum en þeir gera ráð fyrir að á næstu 20 árum verði eftirspurn eftir 1.250 Airbus vélum um allan heim. Spár benda til að fjöldi flugfarþega muni þrefaldast á sama tímabili. Tilraunaflug á Airbus A380 hefst fyrir 1. apríl en gert er ráð fyrir að áætlunarflug hefjist á næsta ári en Singapore Airlines verður fyrsta fyrirtækið sem tekur vélina í sína þjónustu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×