Erlent

Ítalir átaldir vegna lausnargjalds

Lausnargjald var greitt fyrir tvo ítalska gísla sem haldið var í Írak. Gleði ríkir á Ítalíu vegna heimkomu þeirra en ítölsk stjórnvöld eru átalin fyrir að hafa reitt lausnargjaldið af hendi.  Konurnar störfuðu báðar að mannúðarmálum í Írak þegar þeim var rænt í byrjun mánaðarins. Misvísandi upplýsingar höfðu borist um örlög þeirra en þegar fréttist af því að þeir væru frjálsar og á leið heim braust út mikil gleði á Ítalíu. Þær komu heim í nótt, skælbrosandi. Það skyggir á gleðina að ítölsk stjórnvöld eru talin hafa greitt lausnargjald fyrir konurnar, allt að milljón dollara. Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, vildi þó ekki ræða það þegar hann birtist fréttamönnum. Hann sagðist afar þakklátur öllum þeim sem hafi hjálpað stjórnvöldum og fjölskyldum kvennanna og telur aðgerðir yfirvalda hafa verið óaðfinnanlegar. „Við héldum alltaf í vonina að þetta myndli leysast. Ef mér leyfist að segja það þá helguðum við okkur þessu nótt sem nýtan dag,“ sagði Berlusconi. Formaður utanríkismálanefndar ítalska þingsins viðurkenndi hins vegar að lausnargjald hefði verið greitt. Leiðarar sumra dagblaða gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega og segir í blaðinu Il Folio að ekki sé ástæða til að fagna. Lausnargjaldið verði notað til að fjármagna vopnakaup og baráttu gegn friði og lýðræði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×