Erlent

Dómgreindarskortur Bush

Ákvörðun George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, að ráðast inn í Írak ber vott um dómgreindarskort og getur leitt stríðs sem ekki sér fyrir endann á. "Saddam Hussein var hræðilegur einræðisherra sem á skilið að fara til helvítis," sagði Kerry í ræðu sem hann flutti í New York-háskóla í gær. "En það er ekki nóg til þess að fara í stríð. Samt segir Bush að ef hann stæði í sömu sporum í dag og hann gerði áður en hann fór í stríðið myndi hann gera nákvæmlega það sama. Hvernig getur honum verið alvara? Er hann virkilega að segja að ef við vissum að það væri engin raunveruleg hætta vegna Íraka, engin gjöreyðingarvopn, engin tengsl við al-Kaída, þá ættum við samt að ráðast inn í landið? Mitt svar er nei. Það er meginhlutverk forsetans sem yfirmanns hersins að vera ábyrgur og taka vel ígrundaðar ákvarðanir sem stuðla að auknu öryggi Bandaríkjamanna. Bush steypti einræðisherra af stóli og gjaldið sem við greiðum er ringulreið og minna öryggi Bandaríkjamanna." Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að ræða Kerry í gær hafi verið til þess fallin að kveða niður þær sögur um að hann sé ekki með neina stefnu varðandi Írak og stríðið. Steve Schmidt, einn af kosningastjórum Bush, segir að með orðum sínum sé Kerry að senda þau skilaboð til óvina Bandaríkjanna að Bandaríkjamenn séu linir og gefist auðveldlega upp.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×