Erlent

Lokaárás yfirvofandi

Lokaárás er yfirvofandi í Najaf í Írak þar sem harðlínuklerkurinn al-Sadr ögrar stjórnvöldum og neitar að gefast upp. Orrustuþotur og skriðdrekar láta sprengjum rigna í kringum Imam Ali moskuna þar sem al-Sadr heldur til. Allt stefnir í bál og brand í Najaf. Þrátt fyrir að Muqtada al-Sadr hafi í gær gengið að skilmálum yfirvalda og lofað að hverfa úr Imam Ali moskunni og láta menn sína leggja niður vopn, þrjóskast hann enn við og virðist raunar hafa skipt um skoðun. Yfirvöld segja nú þolinmæði sína brostna og Hazem Shaalan, varnarmálaráðherra Íraks, hét því fyrr í dag að ráðast á bækisstöðvar al-Sadrs í Najaf. Orrustuþotur og skriðdrekar hafa varpað sprengjum í nánd við moskuna og fréttamenn á vettvangi lýsa ástandinu svo að allt sé í rúst. Sprengjuregninu lauk eftir nokkrar stundir svo að hersveitir Íraka og Bandaríkjamanna virðist ekki ganga fram af mikilli hörku. Bardagarnir í Najaf hafa kostað hundruð lífið undanfarnar vikur og átt þátt í því að olíuverð hefur snarhækkað á heimsmarkaði. Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, gekk síðdegis ekki jafn langt og varnarmálaráðherra landsins sem sagði að einungis væru nokkrir tímar til stefnu. Allawi sagði að leysa þyrfti málið sem fyrst. Hann kvaðst þó ekki ætla að veita frekari frest eða viðvaranir og að samningaviðræður, sem talsmenn al-Sadrs hefðu lýst eftir, kæmu alls ekki til greina. Myndin sýnir sprengju varpað á hús í Najaf í dag þar sem talið er að fylgismenn al-Sadrs hafist við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×