Erlent

Ögurstund í Najaf

Komið er að ögurstundu í borginni Najaf í Írak. Þolinmæði stjórnvalda gagnvart Muqtada al-Sadr er á þrotum og árás yfirvofandi. Hann vill hins vegar viðræður.  Í gær virtist sem lausn hefði fundist á stöðunni í Najaf þegar Muqtada al-Sadr gekk að skilmálum írakskra stjórnvalda, lofaði að hverfa úr Iman Ali moskunni og að láta Mehdi-skæruliðasveitir sínar leggja niður vopn. En síðar komu fram skilyrði, sem hann setti sjálfur, þess efnis að bandarískar og írakskar sveitir hörfuðu frá moskunni. Því virðist sem pattstaða sé enn á ný komin upp í Najaf. Fimm háværar sprengingar heyrðust skammt frá Iman Ali moskunni fyrr í morgun og sjónarvottar segja að leyniskyttur séu á sveimi á svæðinu. Íröksk yfirvöld segjast nú ekki lengur hafa neina þolinmæði gagnvart al-Sadr og að árás sér yfirvofandi sem binda muni enda á skærurnar og feril klerksins. Á fréttamannafundi fyrir stundu kom fram að yfirvöld telja að öllum friðsamlegum leiðum til úrlausnar hafi verið beitt og að nú verði al-Sadr að uppfylla þau skilyrði sem hann gekkst inn á í gær. Öðrum kosti sé komið að ögurstundu og dagar hans séu taldir. Al-Sadr vill hins vegar viðræður og að samið verði um hvernig uppgjöf liðs hans fer fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×