Fleiri fréttir

Ákærður fyrir brugg og fíkniefnasölu

Karlmaður um fimmtugt hefur verið ákærður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, kannabisræktun, bruggstarfsemi og sölu dóps og landa.

500 nýjar íbúðir gætu risið

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að veita vilyrði fyrir stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta (FS) við Brautarholt 7. Þar gætu risið allt að 100 íbúðir. Enn fremur var ákveðið að hefja viðræður við Háskólann í Reykjavík um að hefja undirbúning að byggingu stúdentagarða á svæði háskólans við Öskjuhlíð. Skipulagsráð kannar síðan frekari uppbyggingarmöguleika fyrir námsmannaíbúðir á tveimur svæðum í samvinnu við HÍ og FS.

Góð loðna í grænlenskri lögsögu

Fyrstu loðnunni á vertíðinni var landað á Vopnafirði um helgina. Víkingur AK, skip HB Granda, færði að landi þúsund tonna farm af stórri loðnu sem fékkst í grænlenskri lögsögu.

ASÍ gagnrýnir fjárlagafrumvarp 2012

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir vonbrigðum með grundvallarstefnuna að baki fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012. Lítil innistæða sé fyrir þeim veiku forsendum sem stjórnvöld gefi sér fyrir efnahagsbata.

Ólafur hafði nær takmarkalaust vald yfir henni

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups kom fram í viðtali á RÚV í kvöld. Í viðtalinu sagði hún frá bókinni "Ekki líta undan“ sem kemur út í kvöld. Hún fjallaði um kynferðisafbrot föður síns gegn sér, sagði áhrifum þeirra á líf sitt og baráttu við gleymdar minningar. Hún sagði frá því hve þungt ofbeldið lagðist á hana gegnum tíðina. Það eyðilagði jafnvel fyrir henni ákveðnar bragðtegundir og lyktir. Til að mynda segist hún aldrei almennilega hafa getað drukkið appelsín sökum þess í undirmeðvitund hennar tengist það löngu liðnum brotum Ólafs.

Maðurinn sem teiknaði Jobs á himnum

Gísli Guðjónsson er maðurinn sem teiknaði skopmyndina af Steve Jobs við hlið himnaríkis. Hann segist mikill aðdáandi Jobs og alltaf verið Mac-maður. Þegar hann frétti af dauða Jobs fannst honum réttast að heiðra hann með skopmynd.

Vilja að skjálftunum linni

Iðnaðar- og umhverfisráðuneytið hafa óskað eftir því að mikil skjálftavirkni við Hellisheiðarvirkjun verði skoðuð. Bæjarstjórinn í Hveragerði segir skjálftana vekja ugg hjá bæjarbúum og telur að Orkuveitan verði að breyta starfsaðferðum sínum svo íbúarnir þurfi ekki að búa við síendurtekna skjálfta.

Hópráðningar á erfiðum tímum

Það eru hópráðningar en ekki hópuppsagnir hjá Skemmtigarðinum sem opnar bráðum 2000 fermetra innanhústívolí í Smáralind. Áætlað er að ráða 60 manns í vinnu og tók umsækjendur þátt í óhefðbundnu ráðningarferli í dag.

Vilja hreindýr á Vestfirði

Skotveiðifélag Íslands vill að hreindýr verið flutt á Vestfirði og telur að koma dýranna muni lengja ferðamannatímann þar. Í tíu ár hefur Skotveiðifélag Íslands kannað möguleika á að fjölga íslensku hreindýrunum. Áhugamenn um að hreindýr verði flutt á Vestfirði hittust því á fundi á Ísafirði í dag. Stefnan er að stofna sérstök samtök í desember til að vinna að þessari hugmynd.

Samband komið á farsíma

Farsímaþjónusta Vodafone er nú komin í lag, eftir að hafa legið niðri vegna bilunar í dreifikerfi Nova og Vodafone. Viðskiptavinir gætu þó þurft að endurræsa símtæki sín svo tækin skrái sig að nýju inn á kerfin. Tæknimenn hófust handa við að leysa vandann um leið og hans var vart og fljótlega tókst að greina orsök hans. Viðgerð lauk um kl. 20 í kvöld. Engar truflanir urðu á net- og heimasímaþjónustu.

Sprengiefnið enn ófundið

Um fjögur hundruð kíló af sprengiefni sem stolið var í síðustu viku eru enn ófundin. Lögreglunni hafa borist nokkrar ábendingar sem hún skoðar. Sprengiefnið var á vinnusvæði í Þormóðsdal ofan við Hafravatn. Efnið var geymt í tveimur gámum sem voru vel læstir. Þjófarnir virðast hafa undirbúið sig nokkuð vel en þeir notuð meðal annars logskurðartæki til að komast inn í gámana.

Lyf yfirvalda ekki þau bestu

Kvensjúkdómalæknar sem látið hafa bólusetja dætur sínar gegn HPV-sýkingum, sem geta valdið leghálskrabbameini, völdu annað lyf en það sem yfirvöld nota til að bólusetja stúlkur með í dag. Gríðarlegur verðmunur gerði útslagið um hvort bóluefnið var valið.

Farsímar enn sambandslausir

Farsímasamband liggur enn niðri hjá stórum hluta símnotenda hjá Vodafone og Nova. Visir greindi frá því fyrr í dag að bilunin myndi aðeins vara fáeinar mínútur. Annað kom á daginn og sambandslaust hefur nú verið hjá farsímanotendum í lengri tíma. Ástæða þess er bilun í kerfum fyrirtækjanna, sem valdið hefur truflunum á símaþjónustu við farsíma. Tæknimenn hófust handa um leið og bilunarinnar varð vart og hafa nú staðsett bilunina. Unnið er að viðgerð.

Fríða kom upp um „dýrið“

"Það er ótrúlegt að það hafi þurft fegurðardrottningu frá Íslandi til þess að hafa uppi á einum hættulegasta glæpamanni Bandaríkjanna," segir rannsóknarblaðamaður Boston Globe um mál Whitey Bulger sem var handtekinn eftir ábendingu frá Önnu Björnsdóttur.

Listamenn „Yfirtaka Wall Street"

Síðustu 22 daga hefur fólk í Bandaríkjunum mótmælt vegna efnahagsástands landsins undir yfirskriftinni „Yfirtökum Wall Street". Hingað til hefur lögregla þó meinað þeim aðgang að götunni sjálfri. Í gær barst hreyfingunni liðsauki úr óvæntri átt, því listamenn settu upp sýningu innblásna af mótmælunum í húsi við götuna. Hún var nánar tiltekið sett upp í húsi sem byggt var árið 1914 sem höfuðstöðvar fjárfestisins J. P. Morgan.

Farsímar sambandslausir

Farsímakerfi Vodafone og Nova liggur niðri eins og stendur. Unnið er að lausn á málinu. Kerfið datt út fyrir nokkrum mínútum síðar. Ekki er um kerfið í heild sinni að ræða, heldur aðeins ákveðin númer sem liggja niðri. Svipuð bilun hefur komið upp áður en þá tók aðeins um 7 mínútur að leysa vandann. Farsímanotendur þurfa því ekki að örvænta vegna langvarandi bilunar.

Óeirðir í Egyptalandi

Hundruðir kristinna manna mótmæla nú á götum Kairó í Egyptalandi vegna niðurrifs kirkju í sveitaþorpi. Samkvæmt ríkissjónvarpi Egyptalands er hefur einn maður látist í óeirðum nú þegar. Mótmælin eru leidd af nokkrum biskupum úr koptísku kirkjunni (e. Coptic Orthodox Church) en það er opinbert nafn stærstu kirkju kristinna manna í Egyptalandi og Mið-Austurlöndum. Mótmælin áttu að fara friðsamlega fram, en fóru fljótt úr böndunum þegar fólk á svölum hóf að grýta mótmælendurna með steinum. Nú ríkir fullkomin ringulreið á götum borgarinnar. Mótmælendurnir krefjast þess að kirkjan verði endurbyggð og ríkisstjórinn sem fyrirskipaði niðurrif hennar segi af sér.

Viðvörun til stuðningsmanna andstöðunnar

Stjórnvöld í Sýrlandi vöruðu í dag við því að þau muni snúast harkalega gegn hverju því landi sem styður formlega tilvist nýstofnaðs Þjóðarráðs Sýrlands. Þjóðarráðið nýstofnaða samanstendur af andstæðingum Bashar al-Assad. Vestræn ríki eins og Bandaríkin og Frakkland hafa fagnað myndun þess, en þau hafa ekki boðið því formlega viðurkenningu.

Alþjóðlegir sérfræðingar í Fukushima

Sérfræðingar frá Alþjóðlegu kjarnorkustofnunin (INEA) eru staddir í Fukushima-borg til að fylgjast með tilraunum yfirvalda til að hreinsa svæðið. Hópurinn sem samanstendur af tólf mönnum mun gefa yfirvöldum í Japan stutta skýrslu um heimsókn sína í lok næstu viku. Hann mun svo setja saman ítarlegt yfirlit um málið sem verður opinberað í næsta mánuði.

Sauðburður á undarlegum tíma

Fimm vetra ær af Litlu-Ávík á ströndum var í morgun borin tveim hrútlömbum. Þegar bóndinn Sigursteinn Sveinbjörnsson athugaði fé sitt fyrir hádegi í dag blöstu þessi merkilegu tíðindi við honum. Hann kom ánni og lömbunum í hús hið fyrsta, enda norðanátt og snjókoma á svæðinu. Eins og menn vita er sauðburður að vori og sjaldgæft að ær beri á haustin. Þess skal þó getið að þetta er ekki í fyrsta sinn sem það ber til í Litlu-Ávík, því árið 2004 bar þar önnur ær tveim lömbum um miðja sláturtíð. Féð á þeim bæ virðist því nokkuð kenjótt.

Fellibylur við strendur Mexíkó

Fellibylur sem nefnist Jova stefnir nú upp að ströndum Mexíkó. Fellibylurinn er nú í styrktarflokki eitt og mældist vindhraði hans í morgun um 140 km/klst. Gert er ráð fyrir því að fellibylurinn styrkist enn frekar á næstu dögum og búast menn við því að hann gangi á land í Mexíkó á þriðjudaginn eða seint á mánudag.

Fjárveiting til HÍ í eðlilegum farvegi

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, segir aukafjárframlög til Háskóla Íslands og framkvæmd þeirra í fullkomlega eðlilegum farvegi. Hann segir engar ákvarðanir um útgjöld til þessa máls verða teknar nema með samþykki þingsins, enda annað andstætt lögum. Eins og kunnugt er tilkynnti Jóhanna Sigurðardóttir í gær að Háskóli Íslands muni næstu fjögur árin hljóta aukafjárveitingu upp á 1,5 milljarð króna.

Eldgosaviðvörun á Kanaríeyjum

Stjórnvöld á Kanaríeyjum gáfu í dag út eldgosaviðvörun til að bregðast við langvarandi smáskjálftahrinu sem staðið hefur síðustu þrjá mánuði. Yfirvöld á Kanaríeyjunni El Hierro gáfu í dag út 2. stigs eldgosaviðvörun í kjölfar jarðskjálfta sem náði 4,3 á richter sem skók eyjuna í gær. Smáskjálftavirkni hefur verið mikil á svæðinu að undanförnu.

Virðist ekki lífshættulega slasaður

Maðurinn sem lenti í bílslysi sunnan við Raufarhöfn í morgun virðist við fyrstu skoðun ekki vera lífshættulega slasaður. Hann hefur þó nokkra höfuðáverka en ekki virðist um mænuskaða að ræða. Maðurinn verður lagður inn á spítala. Sérfræðingar gera ekki ráð fyrir því hann muni liggja inni lengi en fylgst verður með honum um sinn.

Komnir á lokasprettinn í Líbíu

Þjóðarráð Líbíu segir „komið að lokakafla bardagans" og uppreisnarmenn séu á síðasta sprettinum við að leggja Sirte undir sig. Uppreisnarmenn náðu tökum á Háskóla bæjarins í nótt, og stjórna nú stórum parti svæðisins. „Enn er nokkuð eftir af bardaganum, en það má segja að við séum á lokasprettinum," sagði Al Zubair Al Kadi, foringi í her Þjóðarráðsins.

Chávez styður bandaríska mótmælendur

Hugo Chávez, forseti Venesúela, lýsti yfir samstöðu með bandarískum mótmælendum sem síðustu daga hafa mótmælt breikkandi bili milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum. „Fátækt eykst og eymdin verður stöðugt meiri," sagði Chávez um ástandið í Bandaríkjunum og bætti við að samúð sín lægi öll hjá mótmælendum sem lent hefðu í fangelsi vegna mótmælanna undanfarið.

Tveir létu lífið í sprengingu

Að minnsta kosti tveir létu lífið þegar sprenging varð í vöruhúsi í þorpinu Andst á Jótlandi í Danmörku í gær. Húsið varð fljótt alelda og gekk illa að slökkva eldinn en ekki liggur fyrir hversu margir voru í húsinu þegar sprengingin varð. Mikið magn af flugeldum var geymt í húsinu og var því ákveðið að rýma nálæg íbúðarhús af ótta við fleiri sprengingar. Ekki liggur fyrir hvað olli sprengingunni.

Rangt staðið að styrk til Háskólans

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd gagnrýnir hvernig staðið er að fyrirhugaðri aukafjárveitingu til Háskóla Íslands. Framlögin komi ekki fram í fjárlagafrumvarpi sem aðeins er nokkurra daga gamalt. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Vísbendingar um dýnamítþjófa berast

Lögreglu hafa borist einhverjar vísbendingar, sem verið er að kanna, um hverjir gætu hafa stolið rúmlega 400 kílóum af sprengiefni skammt frá Hafravatni í vikunni. Sprengiefnið var í tveimur gámum á vinnusvæði í Þormóðsdal ofan við Hafravatn. Efnið er í eigu verktakafyrirtækis. Fyrirtækið er með grjótnámu þar sem reglulega er sprengt. Lögregla segir vörslu á sprengiefnisins algjörlega í samræmi við reglur Vinnueftirlitsins. Þannig hafi það til að mynda verið geymt í tveimur aðskildum gámum.

Mynd Íslendings slær í gegn

Gísli Guðjónsson býr í Boston í Bandaríkjunum. Þegar hann frétti af dauða Steve Jobs datt honum í hug skopmynd í minningu forstjórans. Myndin fer nú sem eldur í sinu um internetið og hefur vakið mikla lukku. Á samskiptamiðlinum facebook nálgast myndin nú 100.000 likes. Einnig hafa erlendir fréttamiðlar fjallað um myndina.

Mikið slasaður eftir bílveltu

Karlmaður sem lenti í bílveltu við Deildará, rétt sunnan við Raufarhöfn er talinn mikið slasaður. Hann er nú í sjúkraflugi á leið til Reykjavíkur. Enn er ekki vitað nákvæmlega hvernig slysið átti sér stað. Maðurinn var einn í fólksbíl á leið eftir beinum vegi. Bíllinn lenti út af veginum og tók í leiðinni nokkrar veltur. Lögreglan á Húsavík er sem stendur að rannsaka slysstaðinn.

Tusk spáð sigri í Póllandi

Borgaravettvangi, flokki Donalds Tusk forsætisráðherra Póllands, er spáð sigri í þingkosningum í Póllandi í dag. Gangi það eftir verður það í fyrsta skipti sem ríkisstjórn heldur velli í þingkosningum þar í landi frá lokum kalda stríðsins. Stærsta stjórnarandstöðuflokknum, laga og réttlætisflokki Jaroslaw Kanczynski, er einnig spáð góðu gengi en fylgi flokksins hefur farið vaxandi á undanförnum vikum. Kjörstaðir voru opnaði í morgun en um þrjátíu milljónir eru á kjörskrá.

Olíuleki við náttúruperlu

Gríðarstórt flutningaskip strandaði á skeri úti fyrir einni fegurstu baðströnd Nýja-Sjálands. Þegar er talið að um 30 tonn af olíu hafi lekið í sjóinn og myndað um 5 kílómetra langa rák. Ef skipið brotnar eru um 1.700 tonn af olíu innanborðs sem geta flætt yfir eina fegurstu náttúruperlu Nýja-Sjálands.

Skjálftar í nótt

Skjálftahrina mældist við Hellisheiðarvirkjun í kringum miðnætti. Sá stærsti var mældist þrír á richter. Tíðar skjálftahrinur hafa verið á svæðinu og hafa þúsundir skjálfta mælst þar síðastliðinn mánuð. Skjálftana má rekja til jarðvarmavinnslu Orkuveitunnar við virkjunina. Skjálftarnir verða þegar affallsvatni er dælt frá virkjuninni niður í sprungur á svæðinu. Þeir stærstu fundist vel í Hveragerði, en þeirra hefur einnig orðið vart í Mosfellsbæ og á Hvollvelli.

Söfnun SEM skilar milljónum

Landssöfnun SEM samtakanna hefur skilað 19 milljónum í peningum og 6 milljónum í vinnuframlagi og gjöfum. Söfnunin fór fram í beinni útsendingu Stöðvar 2 á föstudagskvöldið síðasta. Samtök Endurhæfðra Mænuskaddaðara (SEM) hleypti söfnuninni af stokknum í því skyni að fjármagna viðgerðir á húsnæði samtakanna. „Við erum afar þakklát þjóðinni fyrir að bregðast svona vel við beiðni okkar," sagði Haraldur Sigþórsson, formaður Húsnæðisfélags SEM samtakanna, og var ánægður með söfnunina.

Varar við ísingu á vegum

Vegagerðin varar við ísingu á vegum á Norður- og Norðvesturlandi í dag. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát og fylgja þeim merkingum sem uppi eru. Í dag mun vindur snúast upp í norður-átt og kólna ákveðið. Færðin versnar fyrst á fjallvegum en í byggðum eftir því sem á líður.Gert er ráð fyrir éljagangi á Vestfjörðum síðar í dag. Vestantil á Norðurlandi versnar veður um hádegi með snjómuggu krapi. Þetta á m.a. við um Holtavörðuheiði.

Dagur Leifs Heppna

Í dag er dagur Leifs Eiríkssonar eða Leifs Heppna sem talinn er hafa fundið Ameríku árið þúsund, fimm hundruð árum áður en Kristófer Kólumbus kom þangað. Lengi hafa menn velt fyrir sér hvort Leifur hafi verið Íslendingur eða norðmaður en níundi Október er ekkert sérstaklega tengdur atburði í lífi Leifs. Hann var valinn sem dagur Leifs heppna vegna þess að þennan dag árið 1825 kom skipið Restauration til New York eftir þriggja mánaða siglingu frá Stafangri í Noregi, með 52 farþega innanborðs. Þetta var fyrsta skipulagða ferðin frá Skandinavíu til Bandaríkjanna.

Trompaðist í sjúkrabíl

Ung stúlka missti gersamlega stjórn á sér í sjúkrabíl í nótt, sló til sjúkraflutningamanna og sparkaði í lögreglumenn. Lögreglan fékk tilkynningu um að stúlkan lægi í krampakasti á Lækjartorgi um hálfþrjú leytið í nótt. Þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn var hún nær meðvitundarlaus. Hún var sett á börur og færð inn í sjúkrabíl. Þar kom hún til sjálfrar sín og missti gersamlega stjórn á sér. Eftir nokkur átök var ákveðið að færa hana í fangageymslur.

Umferðarslys við Raufarhöfn

Umferðarslys varð rétt við Raufarhöfn upp úr klukkan 9 í morgun. Um er að ræða mann sem var einn í bíl. Sjúkraflutningamenn hafa þegar flutt manninn af svæðinu. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir sem stendur, en lögreglan á Húsavík mun vera á leiðinni á slysstað.

Bátur í vanda

Stjórnstöð siglinga fékk tilkynningu lítinn bát sem var í vandræðum um fjögurleytið í nótt. Aðeins einn maður var um borð og hafði hann ætlað að sigla bátnum frá Norðurfirði til Skagastrandar. Þegar hann kom út á flóann lenti hann í leiðindaveðri, dæla bilaði og stjór kom inn í vélarúmið. Björgunarbáturinn Húnabjörg á Skagaströnd var sendur honum til aðstoðar og dró hann að bryggju á Skagaströnd.

Jobs skilur eftir sig nýjar hugmyndir

Hinn nýlátni forstjóri Apple, Steve Jobs virðist hafa skilið eftir sig uppkast að nýjum vörum sem munu endast fyrirtækinu næstu fjögur árin. Frá þessu er greint á vefmiðli The Daily Mail. Þrátt fyrir að hafa tekist á við alvarleg veikindi undanfarið vann Steve Jobs síðastliðið ár að vörum sem hann áleit að myndu tryggja framtíð fyrirtækisins. Meðal þeirra eru uppfærðar týpur af ipod, ipad, iphone og macbook. Þá má einnig nefna að hann hefur unnið mikið að svonefndu iCloud verkefni, sem mun gera Apple notendum kleift að vista gögn sín á fjarlægum diskum utan tölvunnar.

Vilja aðgerðir vegna HIV sýkinga

Sóttvarnarráð vill að skimað verði í auknu mæli fyrir HIV-sýkingum, svo sem meðal ófrískra kvenna, fanga, fíkla og á húð- og kynsjúkdómadeild, til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdómsins.

1,5 milljarður til Háskóla Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tilkynnti í dag um fjárframlög til Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Hörpunni vegna 100 ára afmælis háskólans. Um er að ræða sjóð upp á 1,5 milljarð króna sem Háskólanum verður ráðstafað næstu fjögur ár.

Undirbúa vegaframkvæmdir í Teigsskógi

Vegagerðin er byrjuð að safna upp efni í grjótfyllingu fyrir umdeildan veg í gegnum Teigsskóg og þekur það nú heilan flugvöll í Gufudalssveit.

Sjá næstu 50 fréttir