Erlent

Olíuleki við náttúruperlu

Hið 47.000 tonna flutningaskip sést hér eftir strandið með töluverða slagsíðu.
Hið 47.000 tonna flutningaskip sést hér eftir strandið með töluverða slagsíðu. Mynd/AFP
Gríðarstórt flutningaskip strandaði á skeri úti fyrir einni fegurstu baðströnd Nýja-Sjálands. Þegar er talið að um 30 tonn af olíu hafi lekið í sjóinn og myndað um 5 kílómetra langa rák. Ef skipið brotnar eru um 1.700 tonn af olíu innanborðs sem geta flætt yfir eina fegurstu náttúruperlu Nýja-Sjálands.

Þegar hafa um 200 manns verið sendir á svæðið og vinna nú hörðum höndum að því að hreinsa upp olíu og dæla af skipinu áður en þeir reyna að koma því aftur á flot. Á morgun er spáð illviðri á svæðinu, sem mun tefja hreinsunarstörf mjög.

Ströndin sem um ræðir kallast Bay of Plenty og er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Skipið siglir undir fána Líberíu og sigldi á miðvikudaginn var í lygnum sjó og góðu veðri á sker sem skipstjórar vita almennt af. John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði allt benda til þess að eitthvað hrikalegt hefði farið úrskeiðis innanborðs á skipinu. „Og við þurfum að komast að því hvað það var."

Úti fyrir ströndinni er líflegt dýralíf. Líffræðingar á svæðinu segjast þegar hafa fengið fugla útataða í olíunni senda til umönnunar, þar á meðal litlar bláar mörgæsir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×