Erlent

Komnir á lokasprettinn í Líbíu

Hermenn Þjóðarráðsins skjóta á stuðningsmenn Gaddafi í bardaganum um Sirte í dag.
Hermenn Þjóðarráðsins skjóta á stuðningsmenn Gaddafi í bardaganum um Sirte í dag. Mynd/AFP
Þjóðarráð Líbíu segir „komið að lokakafla bardagans" og uppreisnarmenn séu á síðasta sprettinum við að leggja Sirte undir sig. Uppreisnarmenn náðu tökum á Háskóla bæjarins í nótt, og stjórna nú stórum parti svæðisins.

„Enn er nokkuð eftir af bardaganum, en það má segja að við séum á lokasprettinum," sagði Al Zubair Al Kadi, foringi í her Þjóðarráðsins.

Al Kadi segir 10 manns hafa látið lífið og fjölda særst í átökum síðustu nætur. Ef fram fer sem horfir styttist í að bardaganum um Sirte ljúki.

Þjóðarráðið hefur tilkynnt að það muni lýsa yfir sigri á Gaddafi um leið og stuðningsmenn hans hafa gefist upp í Sirte. Gaddafi hefur ekki sést opinberlega í lengri tíma, en reglulega hafa borist frá honum skilaboð á útvarpsstöðvum þar sem hann hvetur stuðningsmenn sína til að gefast ekki upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×