Innlent

ASÍ gagnrýnir fjárlagafrumvarp 2012

Gylfi Arnbjörnsson og aðrir í miðstjórn ASÍ gagnrýna forsendur fjárlagafrumvarpsins harðlega.fréttablaðið/stefán
Gylfi Arnbjörnsson og aðrir í miðstjórn ASÍ gagnrýna forsendur fjárlagafrumvarpsins harðlega.fréttablaðið/stefán
Miðstjórn ASÍ lýsir yfir vonbrigðum með grundvallarstefnuna að baki fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012. Lítil innistæða sé fyrir þeim veiku forsendum sem stjórnvöld gefi sér fyrir efnahagsbata.

Þá segir miðstjórnin að enn eigi að ná fjárlögum saman með því að hækka þjónustugjöld og skatta.

Miðstjórnin gagnrýnir harðlega að tvískatta eigi viðbótarlífeyrissparnað einstaklinga umfram tvö prósent. Hyggilegra sé að hvetja til sparnaðar en að refsa fólki fyrir að spara, eigi að komast út úr kreppu.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, tekur undir þessa gagnrýni. Hún segir þetta munu hafa veruleg áhrif á viðbótarlífeyrissparnað, sem sé þriðja stoðin í lífeyriskerfi landsmanna. Það veiki kerfið að hræra mikið í því. Lífeyrissjóðskerfi verði að byggja á traustum stoðum.

„Þeir sem leggja núna fyrir fjögur prósent munu lækka þá upphæð niður í tvö prósent. Það er verið að gefa þau röngu skilaboð að það sé betra að eyða peningum núna en að geyma þá til elliáranna,“ segir Þórey. Hún bendir á að efri árin séu þriðjungur mannsævinnar og skynsamlegt sé að hver vinnandi maður leggi fyrir.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×