Innlent

Vísbendingar um dýnamítþjófa berast

Lögreglu hafa borist einhverjar vísbendingar, sem verið er að kanna, um hverjir gætu hafa stolið rúmlega 400 kílóum af sprengiefni skammt frá Hafravatni í vikunni.

Sprengiefnið var í tveimur gámum á vinnusvæði í Þormóðsdal ofan við Hafravatn. Efnið er í eigu verktakafyrirtækis. Fyrirtækið er með grjótnámu þar sem reglulega er sprengt. Lögregla segir vörslu á sprengiefnisins algjörlega í samræmi við reglur Vinnueftirlitsins. Þannig hafi það til að mynda verið geymt í tveimur aðskildum gámum.

Þjófarnir virðast hafa undirbúið sig nokkuð en þeir notuðu til að mynda logsuðutæki til að skera lásana. Þeir náðu að hafa á brott með sér um er að ræða um þrjú hundruð kíló af dýnamíti og rúmlega hundrað kíló af sprengikjarna. Þeir tóku einnig með sér töluvert magn af hvellettum.

Þrátt fyrir að um mikið magn sé að ræða telur lögreglan að þjófarnir hafi getað komið því öllu í stóran jeppa, sendiferðabíl eða notast við kerru.

Lögregla tilkynnti í gær um stuldinn og óskaði eftir upplýsingum frá almenningi ef einhver kynni að vita eitthvað um málið. Nokkrar vísbendingar hafa borist og er lögregla að kanna þær. Hún segir efnið stórhættulegt og biður alla þá sem kunna að hafa einhverjar vísbendingar að hringja í lögregluna í síma 444-1000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×