Innlent

500 nýjar íbúðir gætu risið

Til viðbótar við uppbyggingu skólahúsnæðis í Öskjuhlíðinni er ráðgert að hefja uppbyggingu námsmannaíbúða fyrir skólann. fréttablaðið/gva
Til viðbótar við uppbyggingu skólahúsnæðis í Öskjuhlíðinni er ráðgert að hefja uppbyggingu námsmannaíbúða fyrir skólann. fréttablaðið/gva
Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að veita vilyrði fyrir stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta (FS) við Brautarholt 7. Þar gætu risið allt að 100 íbúðir. Enn fremur var ákveðið að hefja viðræður við Háskólann í Reykjavík um að hefja undirbúning að byggingu stúdentagarða á svæði háskólans við Öskjuhlíð. Skipulagsráð kannar síðan frekari uppbyggingarmöguleika fyrir námsmannaíbúðir á tveimur svæðum í samvinnu við HÍ og FS.

Þessar þrjár samþykktir þýða að 500 nýjar námsmannaíbúðir, að lágmarki, gætu risið á næstu árum. Inni í þeirri tölu eru 280 íbúðir sem munu rísa við svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Eiga byggingarframkvæmdir við þær að hefjast nú í desember.

Borgarráð samþykkti einnig að gera úttekt á Félagsbústöðum og meta möguleika þess að þeir verði undirstaða fasteignafélags sem myndi þjóna öllu höfuðborgarsvæðinu. Með þessu verður leitast við að gera Reykjavíkurborg að kjölfestu í uppbyggingu langtímaleigumarkaðar, segir í tilkynningu frá borginni. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×