Erlent

Fríða kom upp um „dýrið“

Það er ótrúlegt að það hafi þurft fegurðardrottningu frá Íslandi til þess að hafa uppi á einum hættulegasta glæpamanni Bandaríkjanna," segir rannsóknarblaðamaður Boston Globe um mál Whitey Bulger sem var handtekinn eftir ábendingu frá Önnu Björnsdóttur.

James Whitey Bulger er einn þekktasti glæpamaður Bandaríkjanna en hann var handtekinn á heimili sínu þann 22.júní síðast liðinn.

Meðal annars er karakter Jack Nicholson, Frank Costello, í kvimyndinni Departed byggður á Bulger sem er talinn bera ábyrgð á nítján morðum í Boston á árum áður en síðar gerðist hann uppljóstrari fyrir FBI.

Árið 1994 fékk hann síðan ábendingu um að ákæra ætti hann vegna morðanna, þrátt fyrir samstarfið við FBI, og hefur verið á flótta síðan.

Um tíma var hann annar á lista, á eftir Osama Bin Laden, yfir eftirlýsta glæpamenn í Bandaríkjunum.

Bulger dvaldi síðustu þrettán árin í lítilli íbúð í Santa Monica í Kaliforníu ásamt kærustu sinni. Eftir mikla leit sem náði allt frá Bretlandi til Tælands komst ekki skriður á málið fyrr en Anna Björnsdóttir, fyrrum leikkona og Ungfrú Ísland, sá mynd af Bulger á CNN. Hún hafði þá búið í næsta húsi við Bulger og hafði samband við FBI.

Shelley Murphy rannsóknarblaðamaður hjá Boston Globe birti sögu Bulger í dag en hún hefur lengi unnið að málinu. Hér má lesa umfjöllun Boston Globe.

Fréttastofa Stöðvar 2 náði ekki tali af Önnu í dag, en hún fékk rúmar 230 milljónir króna fyrir að benda FBI á sinn fyrrum nágranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×