Erlent

Evrópu­sam­bandið og Ind­land ganga frá fríverslunarsamningi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Von der Leyen var viðstödd hátíðarhöld í gær, þegar Indverjar fögnuðu því að 77 ár voru liðin frá því að þeir fengu stjórnarskrá og urðu lýðveldi.
Von der Leyen var viðstödd hátíðarhöld í gær, þegar Indverjar fögnuðu því að 77 ár voru liðin frá því að þeir fengu stjórnarskrá og urðu lýðveldi. Getty/Hinduistan Times/Raj K Raj

Fulltrúar Evrópusambandsins og Indlands hafa lagt lokahönd á fríverslunarsamning sem hefur verið í smíðum, með hléum, í nærri tvo áratugi. Báðir aðilar eru sagðir freista þess að styrkja tengslin sín á milli og við önnur ríki heims, meðal annars vegna óútreiknanlegrar framgöngu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í fyrra að leggja 50 prósent toll á vörur frá Indlandi en viðræður milli ríkjanna standa enn yfir. Þá hafa Evrópuríkin ítrekað sætt hótunum um tollahækkanir, nú síðast vegna ásælni Bandaríkjaforseta í Grænland.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og António Luís da Costa, forseti leiðtogaráðs ESB, eru stödd í Delhi. Costa sagði í gær að samningurinn fæli í sér mikilvæg skilaboð til umheimsins; þau að Evrópusambandið og Indland hefðu meiri trú á viðskiptasamningum en tollum. Þá sagði von der Leyen að Evrópa og Indland ætluðu að vinna saman að nýrri skipan heimsmálanna. 

Von der Leyen og Costa munu funda með Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, í dag og gert er ráð fyrir formlegri tilkynningu um samninginn að því loknu. Samningurinn verður hins vegar líklega ekki undirritaður fyrr en nokkuð seinna á árinu, þegar hann hefur farið í gegnum stjórnkerfi Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×