Innlent

Einar og Magnea í efstu sætum Fram­sóknar í Reykja­vík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Einar Þorsteinsson mun áfram leiða lista Framsóknar í borginni.
Einar Þorsteinsson mun áfram leiða lista Framsóknar í borginni. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík, verður sjálfkjörinn á lista flokksins í Reykjavík til framboðs í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Magnea Gná Jóhannsdóttir borgarfulltrúi verður einnig sjálfkjörin í annað sætið. Aðrir fulltrúar verða kynntir á kjördæmisþingi Framsóknar þann 7. febrúar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Reykjavík.

„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem grasrót Framsóknar í Reykjavík sýnir mér. Verkefnið framundan er gríðarlega spennandi og ég finn að borgarbúar krefjast þess að núverandi meirihluti sé felldur og að flokkar í borgarstjórn myndi bandalag um breytingar. Ég vil óska Magneu Gná innilega til hamingju með annað sætið, hún hefur verið afar öflugur samherji og mun gera frábæra hluti fyrir Reykjavík á næsta kjörtímabili,“ er haft eftir Einari í tilkynningunni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir er borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík og verður áfram í öðru sæti á lista flokksins í borginni í vor.Vísir/Einar

Hann segir niðurstöðuna endurspegla þá samstöðu og traust sem ríki innan flokksins. Þá segir kjörstjórn að niðurstaðan sé til marks um þá samstöðu og að Einar og Magnea séu „best til þess fallin“ að leiða listann í borginni í vor. 

Sjá einnig: Magnea vill hækka sig um sæti

„Á yfirstandandi kjörtímabili hafa þau aflað sér dýrmætrar reynslu í borgarstjórn og borgarmálum almennt. Sú reynsla er afar mikilvæg og ljóst að hún verður ekki sjálfgefin hjá öllum þeim flokkum sem bjóða fram í komandi kosningum,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá kjörstjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×