Erlent

Rússar, Úkraínu­menn og Banda­ríkja­menn funda í fyrsta sinn við sama borð

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Pútín hitti bandarísku sendinefndina í gærkvöldi þar á meðal Steve Witkoff og Jared Kushner tengdason Trumps forseta. 
Pútín hitti bandarísku sendinefndina í gærkvöldi þar á meðal Steve Witkoff og Jared Kushner tengdason Trumps forseta.  Alexander Kazakov/Sputnik, Kremlin Pool Photo via AP

Fulltrúar Rússlands, Úkraínu og Bandaríkjanna eru nú sagðir ætla að halda samningafund í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um stríðið í Úkraínu og mögulegt vopnahlé. Fundurinn fer fram í dag og er um að ræða fyrstu viðræðurnar frá innrás Rússa fyrir hartnær fjórum árum þar sem Rússar og Úkraínumenn sitja við sama borð ásamt Bandaríkjunum.

Slík fundahöld hafa hingað til yfirleitt farið fram fyrir atbeina milligöngumanna. Stjórnvöld í Moskvu eru sögð hafa staðfest fundinn en það var gert eftir að bandarísk sendinefnd hitti Vladimír Pútín forseta í Moskvu í gærkvöldi.

Rússar segja slíkar viðræður gagnlegar en þeir hafa þegar ítrekað að langtíma friður náist ekki á svæðinu uns búið er að skera úr um eignarhald á landsvæðum í austurhluta Úkraínu, á Donbass svæðinu.

Zelenskí Úkraínuforseti hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta á fundi í Davos í vikunni og þar eru þeir Zelenskí og Pútín sammála. Ekki er hægt að semja um frið á meðan óljóst er um framtíð Donbass.

Bandaríkjamenn hafa lagt til að þar verði búið til einskonar friðar- og fríverslunarsvæði þar sem hvorugt ríkið hefði hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×