Erlent

Rutte samdi ekki við Trump fyrir hönd danska konungs­ríkisins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AP/Thomas Traasdahl

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ítrekar að Danir og Grænlendingar séu þeir einu sem geti tekið ákvarðanir um mál sem varða Danmörku og Grænland. Dönsk stjórnvöld séu í þéttu sambandi við Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, sem sé fullmeðvitaður um afstöðu danska konungsríkisins en það sé gott og fullkomlega eðlilegt að framkvæmdastjóri bandalagsins ræði öryggi á Norðurslóðum við Bandaríkjaforseta. Þá fullyrðir varnarmálaráðherra Danmerkur að Rutte hafi ekki samið við Trump fyrir hönd landsins.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá Frederiksen í morgun, í framhaldi af fréttum um að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi hætt við að leggja tolla á Evrópuríki eftir samkomulag sem hann muni hafa náð um Grænland á fundi með Rutte í gær.

„Öryggismál á Norðurslóðum varða allt Atlantshafsbandalagið. Þess vegna er gott og eðlilegt að um það sé rætt á milli framkvæmdastjóra NATO og forseta Bandaríkjanna. Danska konungsríkið hefur lengi unnið að því, að NATO efli viðbúnað sinn á Norðurslóðum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Danska ríkisstjórnin hafi alltaf verið í samráði við grænlensku heimastjórnina, verið í þéttu samtali við NATO og sjálf hafi Frederiksen talað við Mark Rutte reglulega, þar á meðal bæði fyrir og eftir fund hans með Trump Bandaríkjaforseta í Davos í gær.

Mark Rutte og Donald Trump funduðu í Davos í gær.AP/Evan Vucci

„NATO er fullmeðvitað um afstöðu danska konungsríkisins. Við getum samið um allt pólitískt; öryggismál, fjárfestingar, efnahagsmál. En við getum ekki samið um fullveldi okkar. Ég hef verið upplýst um, að það hafi ekki heldur verið tilfellið. Og það eru að sjálfsögðu bara Danmörk og Grænland sjálf sem geta tekið ákvarðanir er varða spurningar um Danmörku og Grænland,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Konungsríkið vilji enn hefja viðræður með bandalagsríkjum um það hvernig megi auka öryggi á Norðurslóðum, þar á meðal „gullhjúp Bandaríkjanna“, loftvarnarkerfi sem Trump vill byggja upp, svo lengi sem samtalið byggi á virðingu fyrir landamærum konungsríkisins.

Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands.  AP/Virginia Mayo

Í samtali við DR ítrekar danski varnarmálaráðherrann Troels Lund Poulsen einnig að Rutte hafi ekki umboð til að semja fyrir hönd Danmerkur, og það hafi hann ekki heldur gert á fundinum með Trump. Hann fagnar því að dregið hafi úr stigmögnun eftir fund Rutte og Trump, þegar Trump hætti við að beita tollum gegn nokkrum Evrópuríkjum vegna Grænlands. Þá hafi Trump einnig sagt að áfram sé samkomulag í vinnslu.

„Það er ekki þannig að Mark Rutte hafi setið og gert samning fyrir hönd Danmerkur, það gerði hann ekki. Það veit ég líka eftir þau samtöl sem ég hef átt við Mark Rutte, ég ræddi líka við hann seint í gærkvöldi,“ segir Troels Lund Poulsen. Fullveldið sé ekki til að semja um, hvað þá að Mark Rutte hafi gert nokkuð samkomulag um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×