Erlent

Úti­loka ekki að beita hernum í Græn­landi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans hafa rætt hverjir möguleikar þeirra séu varðandi innlimun Grænlands. Einn af möguleikunum sé að nota bandaríska herinn.

Í svari Hvíta hússins við fyrirspurn Reuters segir að Trump telji kaup á Grænlandi forgangsmál fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Landið sé einnig nauðsynlegt til að „fæla frá andstæðinga“ á norðurslóðum.

„Forsetinn og teymið hans ræða ýmsa möguleika til að ná þessu mikilvæga markmiði og að sjálfsögðu er notkun bandaríska hersins, undir stjórn yfirhershöfðingjans, alltaf valkostur,“ segir í svarinu frá Karoline Leavitt, talsmanni Hvíta hússins.

Í umfjöllun The Wall Street Journal er haft eftir Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem segir markmiðið vera að kaupa landið af Dönum. Ítrekaðar hótanir og yfirlýsingar forsetans um yfirráð hans í Grænlandi þýði ekki endilega að landið verði tekið yfir með herafla.

Trump viðraði fyrst hugmyndir sínar um að kaupa Grænland á fyrsta kjörtímabili sínu árið 2019. Í innsetningarræðu sinni fyrir ári síðan minntist hann á hversu mikilvægt Grænland væri fyrir öryggi Bandaríkjamanna. Undanfarna daga, í kjölfar innrásar Bandaríkjanna í Venesúela, hefur forsetinn ítrekað minnst á landið og mikilvægi þess.

Danir og Grænlendingar hafa hvað eftir annað sagt að Grænland sé ekki til sölu og að enginn áhugi sé á því að afhenda Bandaríkjamönnum landið. Fyrr í kvöld fundaði utanríkismálanefnd Danmerkur og ákvað að óska eftir fundi með Rubio. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×