Enski boltinn

„Viljum við að okkar verði minnst fyrir að vera skræfur?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Útlitið er afar dökkt hjá Úlfunum sem eiga enn eftir að vinna leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Útlitið er afar dökkt hjá Úlfunum sem eiga enn eftir að vinna leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. getty/Nick Potts

Matt Doherty, leikmaður Wolves, skóf ekki af því eftir enn eitt tap liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Úlfarnir eru aðeins með tvö stig eftir sautján umferðir og allt bendir til þess að þeir falli í B-deildina.

Wolves beið lægri hlut fyrir Brentford í gær, 0-2. Þetta var tíunda tap Úlfanna í röð og það fimmtánda í sautján leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Ekkert lið hefur verið með færri stig um jólin í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Úlfarnir og ekkert lið hefur verið lengra frá öruggu sæti (fjórtán stig) á þessum tíma.

Doherty, einn reyndasti leikmaður Wolves, reyndi að blása kjarki í sína menn eftir leikinn gegn Brentford.

„Viljum við að okkar verði minnst fyrir að berjast allt til loka tímabilsins eða fyrir að vera skræfur?“ sagði Írinn eftir leikinn á Molineux í gær.

„Mér hefur ekki liðið svona illa í langan tíma. Þú sást að völlurinn var nánast tómur í leikslok og hann var ekki fullur í byrjun. Okkur vantar trú á að við getum unnið leikinn. Við erum nánast hræddir við það.“

Wolves vann ekki síðustu fjóra leiki sína á síðasta tímabili og hefur því leikið 21 leik í röð í ensku úrvalsdeildinni án þess að vinna. Síðasti sigur liðsins kom gegn Leicester City, 3-0, 26. apríl.

Ekkert lið hefur fengið færri stig á tímabili í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Derby County 2007-08. Hrútarnir fengu þá aðeins ellefu stig en margir spá því að Úlfarnir slái það met í vetur.

Næsti leikur Wolves er gegn Englandsmeisturum Liverpool næsta laugardag.


Tengdar fréttir

Dramatík er Broja reyndist hetja Burnley

Fimm leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Boðið var upp á mikla dramatík þegar að Bournemouth tók á móti Burnely og hörmulegt gengi Wolves heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×