Enski boltinn

Salah bað sam­herjana af­sökunar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah sneri aftur í lið Liverpool um síðustu helgi eftir að hafa verið settur út úr hóp fyrir leikinn gegn Inter.
Mohamed Salah sneri aftur í lið Liverpool um síðustu helgi eftir að hafa verið settur út úr hóp fyrir leikinn gegn Inter. getty/Carl Recine

Mohamed Salah bað samherja sína hjá Liverpool afsökunar á ummælum sínum eftir leikinn gegn Leeds United fyrir tveimur vikum. Þetta segir Curtis Jones, miðjumaður Rauða hersins.

Salah sat allan tímann á varamannabekknum þegar Liverpool gerði 3-3 jafntefli við Leeds um þarsíðustu helgi. Eftir leikinn fór Egyptinn í viðtal og kvartaði yfir slæmri meðferð hjá Liverpool, sagðist hafa verið gerður að blóraböggli vegna slæms gengis liðsins, sér hafi verið fleygt undir rútuna og að samband hans og Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, væri brostið.

Salah var ekki í leikmannahópi Liverpool gegn Inter í Meistaradeild Evrópu en sneri aftur í 2-0 sigri á Brighton um síðustu helgi. Jones segir að Salah hafi beðið liðsfélaga sína afsökunar á upphlaupi sínu eftir leikinn gegn Leeds.

„Mo er sinn eigin maður. Hann getur sagt það sem hann vill. Hann bað okkur afsökunar og sagði: Ef ég hef haft áhrif á einhvern og ykkur líður einhvern veginn biðst ég afsökunar. Það lýsir því hvernig maður hann er,“ sagði Jones.

„Þetta er líklega bara hluti af því að vera sigurvegari og hann verður ekki sá síðasti sem gerir þetta. Ég veit að það eru leiðir sem þú getur farið að hlutunum en ég held að það sé meira vandamál ef einhver er sáttur við að vera á bekknum og vill ekki spila.“

Jones erfir ummælin ekki við Salah.

„Þegar við, ég þar með talinn, höfum verið reiðir hefur það alltaf komið frá góðum stað. Á þessu augnabliki hefur þetta kannski ekki komið rétt út en þetta hefur aldrei haft áhrif á hópinn, starfsliðið, stjórann eða nokkurn slíkan. Við erum komnir yfir þetta og núna erum við farnir að ná vel saman sem lið, spila vel og vinna leiki,“ sagði Jones.

Salah er farinn í Afríkukeppnina sem fer fram í Marokkó. Hún hefst á morgun og lýkur 18. janúar. Egyptaland er í riðli með Suður-Afríku, Angóla og Simbabve.

Liverpool sækir Tottenham heim í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn hefst klukkan 17:30 og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×