Erlent

Fannst lifandi í kistu í lík­brennslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan var flutt á sjúkrahús eftir að maðurinn hennar flutti hana til líkbrennslu.
Konan var flutt á sjúkrahús eftir að maðurinn hennar flutti hana til líkbrennslu. AP/Wat Rat Prakhong Tham

Starfsmönnum musteris í Taílandi brá verulega í brún um helgina þegar eldri kona sem komið var með til líkbrennslu reyndist lifandi í kistunni. Bróðir konunnar hafði talið að hún væri dáin og vildi láta brenna hana.

AP fréttaveitan hefur eftir Pairat Soodthoop, framkvæmdastjóra musterisins, Wat Rat Prakhong Tham að bróðir 65 ára gamallar konunnar hafi komið með hana í líkkistu í musterið á sunnudaginn og beðið um að hún yrði brennd.

Starfsmenn musterisins heyrðu þó lágt bank úr kistunni og skipaði framkvæmdastjórinn þeim að opna kistuna hið snarasta. Konan reyndist þá lifandi.

Pairat segir að bróðir hennar hafi gefið þá skýringu að konan hafi verið veik og rúmföst í um tvö ár. Heilsa hennar hafi svo versnað til muna á undanförnum dögum og um helgina hafi hún virst hætt að anda.

Maðurinn lagði hana því í líkkistu og keyrði hana um fimm hundrað kílómetra leið til Bangkok á sjúkrahús en konan mun áður hafa lagt til að hún vildi gefa sjúkrahúsinu líffæri sín.

Starfsmenn sjúkrahússins neituðu að taka við líki konunnar, þar sem bróðir hennar var ekki með dánarvottorð, samkvæmt sögunni sem bróðirinn sagði Pairat.

Umrætt musteri býður upp á ókeypis líkbrennslu en starfsmenn þess vildu ekki heldur taka við líki konunnar og brenna það, þar sem bróðirinn var ekki með dánarvottorð. Það var á meðan verið var að útskýra fyrir bróðurnum hvernig hann gæti fengið dánarvottorð þegar starfsmennirnir heyrðu bankið í kistunni.

Konan var í kjölfarið send á sjúkrahús en Pairat segir að musterið muni greiða kostnaðinn af meðferðinni sem konan fær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×