Fótbolti

Taylor dæmir úr­slita­leikinn í Var­sjá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Taylor verður með flautuna í Varsjá á sunnudaginn.
Anthony Taylor verður með flautuna í Varsjá á sunnudaginn. getty/Marcel van Dorst

Enski úrvalsdeildardómarinn Anthony Taylor dæmir leik Úkraínu og Íslands í undankeppni HM 2026 á sunnudaginn.

Eftir úrslit gærdagsins, þar sem Ísland sigraði Aserbaísjan, 0-2, og Úkraína laut í lægra haldi fyrir Frakklandi, 4-0, er ljóst að Íslendingum dugir jafntefli í leiknum í Varsjá á sunnudaginn til að komast í umspil um sæti á HM á næsta ári.

Dómgæslan í leiknum eftir tvo daga verður í höndum Englendinga. Taylor, sem hefur dæmt í ensku úrvalsdeildinni undanfarin fimmtán ár, verður aðaldómari og Gary Beswick og Adam Nunn aðstoðardómarar. Sam Barrott verður fjórði dómari, Stuart Atwell VAR-dómari og Darren England honum til aðstoðar.

Taylor dæmdi sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í febrúar 2010 og hefur tvisvar sinnum dæmt úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Hann hefur verið FIFA-dómari síðan 2013 og dæmdi á EM 2020 og 2024 og HM 2022.

Taylor dæmdi meðal annars úrslitaleik Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum en eftir hann fór José Mourinho, þáverandi knattspyrnustjóri Roma, ófögrum orðum um frammistöðu Englendingsins og hreytti meðal annars ókvæðisorðum í hann í bílakjallara eftir leikinn. Mourinho fékk fjögurra leikja bann fyrir framkomu sína.

 Taylor dæmdi leik Íslands og Ísraels í umspili um sæti á EM 2024 í fyrra. Íslendingar unnu leikinn, 1-4. Leikurinn fór fram í Búdapest, líkt og úrslitaleikur Evrópudeildarinnar árið á undan, þó ekki á sama velli.

Taylor dæmdi einnig markalaust jafntefli Tyrklands og Íslands í undankeppni EM í nóvember 2019.

Leikur Úkraínu og Íslands hefst klukkan 17:00 á sunnudaginn og verður sýndur í opinni dagskrá á Sýn Sport.


Tengdar fréttir

Gaman í íslenska klefanum eftir leik

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er einu stigi frá sæti í umspili um laust sæti á HM næsta sumar eftir hagstæð úrslit í riðlinum í gærkvöldi.

Eggert Aron mætir fyrir úr­slita­leikinn í Póllandi

Eftir að hafa skorað eitt marka U21-landsliðs Íslands í Lúxemborg í kvöld er Eggert Aron Guðmundsson á leið til móts við A-landsliðið, fyrir úrslitaleikinn við Úkraínu á sunnudaginn um sæti í HM-umspilinu.

Frakkar á HM og Íslandi dugar jafntefli

Frakkar voru í miklum erfiðleikum með að brjóta öflugt lið Úkraínu á bak aftur í kvöld, í riðli Íslands í undankeppni HM í fótbolta, en unnu á endanum 4-0 og hjálpuðu Íslendingum fyrir sunnudaginn.

„Mikill heiður fyrir mig og mína fjölskyldu“

Jóhann Berg Guðmundsson var auðvitað ánægður í kvöld eftir stoðsendingu og sigur í sínum hundraðasta A-landsleik. Hann kveðst aldrei hafa verið í vafa um að hann næði að spila sinn hundraðasta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×