Erlent

Réttað yfir tíu sem segja frönsku forsetafrúna vera karl­mann

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Brigitte og Emmanuel Macron, forsetahjón Frakklands.
Brigitte og Emmanuel Macron, forsetahjón Frakklands. EPA

Réttað er yfir tíu manns í París sem hafa sagt forsetafrú Frakklands vera karlmann. Þau hafa verið kærð fyrir netáreitni en álíka mál hefur einnig verið höfðað í Bandaríkjunum.

Samsæriskenningar hafa verið á lofti um að Brigitte Macron, eiginkona Emmanuel Macron Frakklandsforseta, hafi fæðst sem karlmaður sem heitir Jean-Michel Trogneux. Jean-Michel er í raun bróðir Brigitte en hún bar nafnið Trogneux áður en hún gekk í hjónaband.

Hjónin höfðuðu fyrst mál í Bandaríkjunum á hendur Candace Owens, bandarískum þáttastjórnanda og álitsgjafa. Owens, sem er afar vinsæl meðal stuðningsmanna Donalds Tump Bandaríkjaforseta, gaf út átta þátta hlaðvarpsseríu kallaða „að vera Brigitte.“ Macron-hjónin óskuðu eftir að Owens myndi draga fullyrðingar sínar til baka en hún fjallaði þá enn frekar um málið og sagði forsetahjónin vera skyld og samband þeirra sifjaspell.

Brigitte hefur nú höfðað annað mál gegn tíu manns fyrir netáreitni og hófust réttarhöld í dag. Um er að ræða átta karlmenn og tvær konur á aldrinum 41 til sextíu ára. Ef þau reynast sek geta þau þurft að dúsa í fangelsi í allt að tvö ár. Öll hafa neitað sök en þau eru kærð fyrir að láta fjölda illgjarnra athugasemda falla um kyn og kynhneigð forsetafrúarinnar. Að auki hafa þau sett út á aldursmun þeirra hjóna og sakað hana um barnaníð.

Hjónaband Emmanuel og Brigitte hefur oft verið á milli tannanna á fólki en töluverður aldursmunur er á þeim eða um 24 ár. Þau hittust fyrst árið 1993 þegar hún var 39 ára kennari Emmanuel sem var þá fimmtán ára. Hún var sjálf gift manni að nafni Auziére en þau skildu árið 2006. Macron-hjónin giftu sig árið 2007, þegar Emmanuel var þrítugur og Brigitte 54 ára.

Konurnar tvær eru Aurélien Poirson-Atlan, þekkt sem Zoé Sagan á samfélagsmiðlum og Delphine J., sem birti fjögurra klukkustunda viðtal við blaðamanninn Natacha Rey, þar sem þær héldu því fram að Brigitte hefði fæðst sem karlmaður. Þær voru áður dæmdar til að greiða Brigitte skaðabótagreiðslu en sakfellingin felld úr gildi við áfrýjun dómsins. Niðurstaða áfrýjunarinnar var að málið félli ekki undir skilgreiningu á meiðyrðum.

Samkvæmt The Guardian ætla hjónin að leggja fram vísindalegar staðreyndir um að Brigitte sé í raun kvenkyns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×