Erlent

Höfða mál vegna full­yrðinga um að forsetafrúin sé karl­maður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Owens hefur verið furðulega óvægin í garð forsetahjónanna.
Owens hefur verið furðulega óvægin í garð forsetahjónanna. Getty

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og eiginkona hans Brigitte hafa höfðað mál á hendur bandaríska þáttastjórnandanum og álitsgjafanum Candace Owens. Owens hefur haldið því fram að Brigitte sé í raun karlmaður og forsetinn á mála hjá CIA.

Owens nýtur gríðarlegra vinsælda meðal stuðningsmanna Donald Trump Bandaríkjaforseta og hefur farið mikinn gegn vinstrimönnum, trans fólki og fleirum. Hún sagðist í fyrra vera reiðubúinn til að veðja öllu upp á að Brigitte væri karlmaður og gaf í kjölfarið út átta þátta hlaðvarpsseríu kallaða „Að verða Brigitte“.

Samkvæmt skjölum málsins freistuðu forsetahjónin þess að fá Owens til að draga fullyrðingar sínar til baka en hún brást við með því að gera lítið úr þeim og fjalla enn frekar um málið.

Þá segir að Owens hafi meðal annars haldið því fram að Emmanuel og Brigitte væru skyld og samband þeirra þannig sifjaspell, að CIA hefði valið Macron til að verða forseta Frakklands og að forsetahjónin hefðu gerst sek um svik og yfirhylmingu.

Þau segja herferð Owens aðför að fjölskyldum þeirra og gerða til þess að fá athygli og öðlast alræmi. Hún hafi ítrekað fengið tækifæri til að draga fullyrðingar sínar til baka en þess í stað gefið í árásir sínar.

Málið var höfðað í Delaware og Financial Times hefur eftir heimildarmönnum að forsetahjónin séu reiðubúin til að bera vitni fyrir dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×