Íslenski boltinn

Segja að Hall­dór verði látinn fara og Ólafur Ingi taki við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagar Halldórs Árnasonar hjá Breiðabliki gætu verið taldir.
Dagar Halldórs Árnasonar hjá Breiðabliki gætu verið taldir. vísir/diego

Tíðinda gæti verið að vænta úr herbúðum Breiðabliks. Fótbolti.net fullyrðir að skipt verði um þjálfara hjá karlaliði félagsins.

Breiðablik tapaði fyrir nýkrýndum Íslandsmeisturum Víkings, 1-2, á heimavelli á laugardaginn. Fyrir vikið veiktist von Blika um að ná Evrópusæti verulega.

Illa hefur gengið hjá Breiðabliki að undanförnu en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu ellefu deildarleikjum. Breiðablik tryggði sér þó sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Fjallað var um stöðuna hjá Breiðabliki í Þungavigtinni og svo á Fótbolta.net. Þar segir að Halldór Árnason verði látinn fara sem þjálfari liðsins, jafnvel í dag. Ólafur Ingi Skúlason er sagður taka við þjálfarastarfinu hjá Breiðabliki. Hann er núna þjálfari U-21 árs landslið Íslands.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn finnska liðinu KuPS í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn. Síðasti leikur liðsins í Bestu deildinni er gegn Stjörnunni á sunnudaginn.

Ef Stjarnan vinnur Fram í kvöld er ljóst að möguleikar Breiðabliks á að ná Evrópusæti eru úr sögunni.

Halldór tók við Breiðabliki af Óskari Hrafni Þorvaldssyni haustið 2023. Undir hans stjórn urðu Blikar Íslandsmeistarar í fyrra.

Ekki náðist í Flosa Eiríksson, formann knattspyrnudeildar Breiðabliks, við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

„Færum þeim jöfnunarmarkið á silfurfati“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, hafði ekkert út á leikmenn sína og frammistöðu liðs síns að setja þegar liðið laut i lægra haldi fyrir Víkingi í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld. Halldóri fannst frammistaðan hjá Breiðabliki verðskulda stig.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×