Erlent

Dónatal í desem­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef marka má Altman munu fullorðnir geta átt frjálslegri samtöl við ChatGTP þegar frekari aldursstýringar verða teknar í notkun.
Ef marka má Altman munu fullorðnir geta átt frjálslegri samtöl við ChatGTP þegar frekari aldursstýringar verða teknar í notkun. Getty/Andrew Harnik

Sam Altman, forstjóri OpenAI, segir að næstu útgáfur gervigreindarforritsins ChatGTP muni geta hegðað sér „manneskjulegar“ og að opnað verði fyrir möguleikann á erótík.

Frá þessu greindi Altman á samskiptamiðlinum X í gær, þar sem hann sagði að árangur hefði náðst í því að sníða ChatGTP þannig að menn hefðu ekki lengur áhyggjur af því að gervigreindin hefði skaðleg áhrif fyrir notendur sem glímdu við andleg veikindi.

Í framhaldinu yrði takmörkunum aflétt og á næstu vikum yrði kynnt til sögunnar ný útgáfa af gervigreindinni, sem myndi bjóða notendum upp á þann möguleika að sníða forritið enn betur að eigin þörfum. 

Þannig myndi gervigreindin til að mynda getað svarað manneskjulegar, eða svarað eins og vinur, nú eða svarað aðallega með tjánum, allt eftir óskum notandans.

Þá stæði til að opna enn frekar á aldursstýrðan aðgang og þá yrði gervigreindin enn frjálslegri, til að mynda hvað varðar erótík. Þetta segir Altman í takt við stefnu fyrirtækisins um „koma fram við fullorðna notendur eins og fullorðna“.

OpenAI hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir óábyrga stefnu og meðal annars lögsótt vegna dauða einstaklinga sem sviptu sig lífi eftir samtöl við ChatGTP. Þá hefur fyrirtækið verið sakað um að nota fólk sem tilraunadýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×