Fótbolti

Mörk Ís­lands og Úkraínu: Tvenna Alberts og allt trylltist

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Egill Ellertsson skoraði fyrsta mark Íslands í kvöld eftir frábæran sprett.
Mikael Egill Ellertsson skoraði fyrsta mark Íslands í kvöld eftir frábæran sprett. vísir/Anton

Albert Guðmundsson skoraði tvö mörk og jafnaði metin í 3-3, í leik Íslands við Úkraínu í undankeppni HM í fótbolta á Laugardalsvelli. Mörk leiksins má sjá á Vísi.

Albert jafnaði metin í 3-3 á 75. mínútu þegar hann mætti á hárréttan stað í teignum, eftir fyrirgjöf Loga Tómassonar og „dempun“ Andra Lucasar Guðjohnsen.

Albert hafði áður minnkað muninn í 3-2 þegar enn var hálftími eftir af leiknum, með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Hákonar Arnars Haraldssonar eins og sjá má hér að neðan.

Ruslan Malinovskiy skoraði þriðja mark Úkraínu með frábæru þrumuskoti og sendi Íslendinga afar vonsvikna inn til búningsklefa í hálfleik.

Oleksiy Gutsulyak hafði áður komið Úkraínu í 2-1 þegar hann nýtti sér skelfileg mistök Mikaels Egils Ellertssonar í vítateig Íslands.

Það var Mikael Egill sem hafði metin í 1-1 upp á sitt einsdæmi, á 35. mínútu, úr afar þröngu færi eftir frábæran sprett. Markið má sjá hér að neðan.

Ísland lenti 1-0 undir þegar Ruslan Malinovskiy skoraði eftir 13 mínútna leik. Everton-bakvörðurinn Vitaliy Mykolenko átti stærstan heiðurinn að markinu en hann skeiðaði framhjá Guðlaugi Victori Pálssyni fram vinstri kantinn og gaf svo út í teiginn þar sem Malinovskiy skoraði úr dauðafæri.

Fyrsta mark kvöldsins má sjá hér að neðan en leikurinn er í opinni dagskrá á Sýn Sport.

Hægt er að fylgjast með öllu sem gerist í leiknum í beinni textalýsingu Vísis með því að smella á greinina hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×