Fótbolti

Lætur ekki einn slæman leik hafa á­hrif á verk­efnið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hefur stýrt Írlandi frá því á síðasta ári.
Hefur stýrt Írlandi frá því á síðasta ári. EPA/LORRAINE O'SULLIVAN

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson sér ekki eftir að taka við írska karlalandsliðinu í fótbolta. Hann er þó sár eftir virkilega slæmt tap Írlands gegn Armeníu í síðasta landsliðsglugga.

Það styttist í næsta landsliðsverkefni, þar fá lærisveinar Heimis tækifæri til að ná fram hefndum gegn Armeníu sem og þeir mæta ógnarsterku liði Portúgals. Ræddi Heimir við blaðamenn í höfuðstöðvum írska knattspyrnusambandsins í dag, fimmtudag.

„Ég er í lagi,“ sagði Heimir og hló aðspurður hvernig hann hefði höndlað undanfarnar vikur.

„Svona er lífið, stundum jákvætt og stundum neikvætt. Maður verður að aðlaga sig hverju sinni og halda áfram,“ bætti Eyjamaðurinn við.

„Málið er, við erum með verkefni í höndunum sem okkur leið vel með fram að Armeníu leiknum. Eigum við að láta einn leik hafa áhrif á það sem við erum að gera og hvernig við vinnum okkar vinnu? Alls ekki, við höldum áfram að hafa trú á leikmannahópnum og okkar starfi.“

Heimir viðurkenndi að gagnrýnin eftir tapið í Yerevan hefði haft áhrif á hann. Hann sagði jafnframt að hann hefði fulla trú á að liðið gæti komist á heimsmeistaramótið næsta sumar og að hann sæi alls ekki eftir því að hafa tekið við starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×