Erlent

Vill fá Trump til að gefa Taí­van upp á bátinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá því þegar Trump og Xi hittust árið 2019.
Frá því þegar Trump og Xi hittust árið 2019. AP/Susan Walsh

Xi Jinping, forseti Kína, er sagður reyna að nota ákafa Donalds Trump, kollega síns í Bandaríkjunum, til að gera viðskiptasamning ríkjanna á milli til að ná fram sínu helsta baráttumáli. Xi vonast til þess að fá Trump til að gefa Taívan upp á bátinn og standa gegn sjálfstæði eyríkisins.

Með þessu vonast Xi, samkvæmt heimildum Wall Street Journal, til að einangra Taívan alfarið á alþjóðasviðinu.

Frá því hann tók við völdum árið 2012 hefur Xi heitið því opinberlega að ná tökum á Taívan, jafnvel þó hann þurfi að beita hervaldi til þess. Þetta hefur hann lagt sérstaka áherslu á á þriðja kjörtímabili sínu.

Embættismenn í Bandaríkjunum hafa sagst hafa heimildir fyrir því að Xi hafi skipað yfirmönnum hers síns að vera tilbúnir til að ráðast á Taívan fyrir árið 2027.

Trump sagði í sumar að Xi hefði lofað honum að ráðast ekki á Taívan á meðan hann væri forseti. Hann sagði ekki hvenær þetta loforð hefði verið veitt en sagði að Xi hefði sagst vera þolinmóður og það ætti við alla Kínverja.

Bandaríkin slitu formlegum tengslum við Taívan árið 1979, að kröfu Kínverja, en hafa þrátt fyrir það haldið umfangsmiklum óformlegum tengslum við ríkið og útvega Taívan meðal annars vopn. Bandaríkjamenn hafa um árabil haldið því loðnu hvort þeir myndu beita valdi til að verja Taívan.

Joe Biden, forveri Trumps, lýsti því þó yfir árið 2022 að Bandaríkjamenn myndu aðstoða Taívan hernaðarlega en ummælin áttu ekki að marka stefnubreytingu.

Ríkisstjórn Trumps hefur ekki fylgt þessari orðræðu Bidens og hefur ríkisstjórnin þess í stað sagst standa gegn einhliða breytingum á núverandi ástandi milli Kína og Taívan.

Telur sig geta talað Trump til

Samkvæmt heimildum WSJ er Xi nokkuð viss um að hann geti fengið Trump til að breyta afstöðu sinni gagnvart Taívan. Ráðgjafar ríkisstjórnar Xi, sem standa þó utan ríkisstjórnarinnar, hafa sagt opinberlega að til að ná viðskiptasamningi þurfi Bandaríkjamenn að lýsa yfir andstöðu við sjálfstæði Taívan.

Evan Medeiros, fyrrverandi meðlimur í þjóðaröryggisráði Hvíta húss Baracks Obama og núverandi prófessor við Georgetown, segir það að reka fleyg milli Taívan og Bandaríkjanna vera hinn heilaga kaleik ráðamanna í Peking. Það myndi grafa undan sjálfsöryggi Taívana og auka verulega á áhrif Kínverja yfir eyríkinu.

Bandaríkjamenn og Kínverjar gerðu nýverið samning um samfélagsmiðilinn TikTok en þær viðræður hafa opnað á leiðtogafund milli Xi og Trumps. Þeir ætla þegar að hittast á hliðarlínum ráðstefnu í Suður-Kóreu. Þá hafa borist fregnir af mögulegri heimsókn Trumps til Peking snemma á næsta ári og að Xi heimsæki Washington DC svo seinna á árinu.

Viðskiptastríð og viðræður

Nýverið bárust fregnir af því að Trump hefði neitað að samþykkja umfangsmikla hergagnasendingu til Taívan og hefur það verið sett í samhengi við viðræður Bandaríkjamanna og Kínverja um viðskiptasamband ríkjanna.

Sjá einnig: Sagður neita að samþykkja hergagnasendingu til Taívan

Bandaríkin og Kína hafa átt í nokkuð umfangsmiklum viðskiptaerjum og hefur þeim verið lýst sem viðskiptastríði.

Trump hefur að mestu leyti notast við tolla og bannað bandarískum fyrirtækjum að selja tilteknar vörur í Kína. Ráðamenn í Kína hafa einnig beitt einhverju skæðast vopni þeirra, sem er að takmarka sölu á sjaldgæfum málmum og afurðum úr þeim til Bandaríkjanna og annarra ríkja.

Fyrr á þessu ári vöruðu forsvarsmenn stórra fyrirtækja víða um heim við umfangsmiklum og slæmum áhrifum á hagkerfi heimsins vegna þessara takmarkana en Kínverjar eru svo gott sem allsráðandi á sviði sjaldgæfra málma.

Sjá einnig: Trump segir sjaldgæfa málma og segla aftur á leið til Bandaríkjanna

Kínverjar hafa einnig hætt að kaupa landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum, sem hefur komið verulega niður á bandarískum bændum.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi aðstoðarmaður forseta dæmdur fyrir njósnir

Fyrrverandi aðstoðarmaður forseta Taívan og þrír aðrir sem störfuðu fyrir stjórnarflokk landsins hafa verið dæmdir fyrir njósnir. Mennirnir eru sagðir hafa njósnað fyrir Kína og voru þeir dæmdir í fjögurra til tíu ára fangelsi.

Enn ein ásiglingin við rifið umdeilda

Talsmenn strandgæslu Kína hefur sakað áhöfn skips frá Filippseyjum að sigla vísvitandi á skip strandgæslunnar við umdeilt rif í Suður-Kínahafi. Ráðamenn í Filippseyjum segja ásakanirnar rangar. Kínverskir sjóliðar hafi notað öflugar vatnsbyssur til að skemma filippseyskt skip og slasa áhafnarmeðlim þar um borð.

Sigldu tveimur flugmóðurskipum lengra en áður út á Kyrrahafið

Báðum flugmóðurskipum Kína hefur verið siglt um Kyrrahafið undanfarna daga og er það í fyrsta sinn sem skipin eru notuð þar saman. Ráðamenn í Japan hafa áhyggjur af auknum hernaðarumsvifum Kínverja á Kyrrahafinu og víðar. Svipaða sögu er að segja frá Taívan, sem Kínverjar gera tilkall til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×