Erlent

Alls­herjar­þingið á­lyktar um palestínskt ríki

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Allsherjarþingið var sett á þriðjudaginn síðasta.
Allsherjarþingið var sett á þriðjudaginn síðasta. Getty

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með yfirburðum ályktun sem er ætlað að blása nýju lífi í tveggja ríkja lausn í Palestínu og Ísrael. Ísland greiddi atkvæði með ályktuninni sem var samþykkt innan við sólarhring frá því að haft var eftir Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels að það yrði aldrei palestínskt ríki.

Ályktunin ber heitið New York-yfirlýsingin og kveður á um að þjóðir heimsins skuli stíga „áþreifanleg, tímanleg og óafturkræf skref“ í átt að tveggja ríkja lausn. 142 þjóðir greiddu atkvæði með ályktuninni, tólf sátu hjá og tíu greiddu atkvæði gegn henni, þeirra á meðal Ísrael og Bandaríkin.

Frakkar lögðu ályktunina fram í samvinnu við Sáda. Hún er samkvæmt erlendum miðlum vandlega unnin málamiðlun þar sem Arabaríki fordæma árásir Hamasliða í október ársins 2023 harkalega í skiptum fyrir ótvíræðan stuðning við palestínskt ríki. Markið er samkvæmt Guardian að sýna Ísraelsmönnum og Bandaríkjamönnum að þeir séu einir um afstöðu sína gegn langvarandi lausn á átökunum.

Í yfirlýsingunni lýsir alþjóðasamfélagið yfir stuðningi við stjórn Þjóðarráðs Palestínu á Vesturbakkanum og Gasa. Þjóðarráðið fer þegar með stjórn í þeim hluta hins hernumda Vesturbakka sem Ísraelsmenn hafa ekki algjörlega lagt undir sig.

Kosningin fór fram til undirbúnings ráðstefnu um málefni Palestínu sem fer fram í næstu viku. Frakkland, Bretland, Kanada og Ástralía eru á meðal ríkja sem hafa tilkynnt um að þau hyggist viðurkenna Palestínuríki á ráðstefnunni. Þessi áform hafa þó ekki fallið vel í kramið hjá Ísraelsmönnum. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra sagði í gær að það væri útilokað að Ísrael myndi nokkurn tíma viðurkenna palestínskt ríki. Í dag viðurkenna um þrír fjórðu ríkja heims sjálfstæði Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×