Fótbolti

Flugu inn á HM þrátt fyrir átta marka­laus jafn­tefli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Piero Hincapié fagnar eftir að Enner Valencia skoraði sigurmark Ekvador gegn Argentínu í Suður-Ameríkuriðlinum í undankeppni HM 2026.
Piero Hincapié fagnar eftir að Enner Valencia skoraði sigurmark Ekvador gegn Argentínu í Suður-Ameríkuriðlinum í undankeppni HM 2026. getty/Franklin Jacome

Þrátt fyrir að skora aðeins fjórtán mörk í átján leikjum og þrjú stig hafi verið dregin af liðinu flaug Ekvador örugglega inn á HM 2026.

Ekvador tryggði sér 2. sætið í Suður-Ameríkuriðlinum með því að vinna heimsmeistara Argentínu, 1-0, í gær. Gamla brýnið Enner Valencia skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Ekvador skoraði einungis fjórtán mörk í leikjunum átján í Suður-Ameríkuriðlinum en samt sem áður var Argentína eina liðið sem náði í fleiri stig.

Ekvadorska vörnin var gríðarlega öflug í undankeppninni og liðið hélt þrettán sinnum hreinu í leikjunum átján. Ekvador fékk aldrei meira en eitt mark á sig í leik.

Einu tveir leikirnir sem Ekvador tapaði voru gegn Argentínu og Brasilíu á útivelli. Ekvador vann átta leiki og gerði átta jafntefli, öll markalaus.

Ekvadorar fengu 29 stig en þrjú stig voru dregin af þeim fyrir að falsa fæðingarvottorð Byrons Castillo í síðustu undankeppni.

Ekvador hefur haldið hreinu í síðustu fimm leikjum sínum og aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu ellefu leikjum.

Argentína, Ekvador, Kólumbía, Úrúgvæ, Brasilía og Paragvæ eru komin á HM á næsta ári en Bólivía fer í umspil.

Ekvador hefur fjórum sinnum áður komist á HM, öll skiptin á þessari öld. Liðið komst í sextán liða úrslit á HM 2006 en féll úr leik í riðlakeppninni á HM 2002, 2014 og 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×