Innlent

Þáttastjórnendum X-sins sagt upp

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Danni Baróns og Addi í Sólstöfum stýra nú síðustu þáttunum sínum á útvarpsstöðinni X977.
Danni Baróns og Addi í Sólstöfum stýra nú síðustu þáttunum sínum á útvarpsstöðinni X977. Samsett

Þáttastjórnendum útvarpsstöðvarinnar X977 hefur verið sagt upp. Útvarpsstjóri Sýnar segir að um sé að ræða dagskrárbreytingar.

„Daglegum útvarpsmönnum eins og mér og Danna var sagt upp ásamt nánast öllum sérþáttastjórnendum,“ skrifar Aðalbjörn Tryggvason, betur þekktur sem Addi í Sólstöfum, í færslu á Facebook.

Þar vísar hann í Daníel Jón Baróns Jónsson, betur þekktur sem Danni Baróns, sem er einnig þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni. Addi hefur sjálfur starfað sem þáttastjórnandi í tæp þrjú ár en Danni rúm fjögur.

„Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími, skemmtileg vinna, skemmtilegir hlustendur og samstarfsfólkið frábært. Geng þakklátur frá borði,“ skrifar Addi.

Danni hefur einnig tjáð sig um uppsagnirnar í Instagram-fræslu.

„Vitur maður sagði eitt sinn: Maður vex á X-inu, en maður á ekki að vaxa með X-inu. Það er fín mantra þessa dagana þar sem Sýnar fólkið vildi spara smá pening og ákváðu að segja mér upp (veit reyndar ekki hverjir því aldrei hef ég hitt þessa dularfullu yfirmenn),“ segir Danni.

Hann segir það „smá skell“ að tíma hans á stöðinni sé að ljúka en jafnvel smá létti.

 „Það leiðinlega er að fá ekki lengur að bulla í eyru hlustenda á X-inu, en ég get nú bullað í eyru ykkar hvar sem er. Þið eruð hvergi óhult, því miður,“ segir Danni, sem lofar svakalegri lokaviku sem þáttastjórnandi útvarpsstöðvarinnar.

Stefán Valmundarson, útvarpsstjóri Sýnar, segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða dagskrárbreytingar. Ekki standi til að leggja útvarpsstöðina niður.

„Við erum aðeins að breyta dagskránni hjá okkur,“ segir Stefán sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um uppsagnirnar.

Vísir er í eigu Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×