Innlent

Grinda­vík opin fyrir al­menning á nýjan leik

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Grindvíkingar hafa gagnrýnt lokun bæjarins.
Grindvíkingar hafa gagnrýnt lokun bæjarins. Vísir/Vilhelm

Opnað hefur verið fyrir umferð almennings um Grindavík. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum og brýnir til fólks að nýjar gossprungur geti opnast með litlum fyrirvara og að skyndileg framhlaup geti orðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Grindvíkingar hafa gagnrýnt ákvörðun yfirvalda um að bænum skyldi lokað ansi harðlega. Á sama tíma var ferðamönnum frjálst að fara í Bláa lónið en engum þeirra bauðst að fara til Grindavíkur sjálfrar.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum segir að mikilvægt sé að hafa í huga að hættulegt sé á gossvæðinu og að aðstæður þar geti breyst skyndilega. Nýjar gossprungur geti opnast og glóandi hraun fallið úr hraunjaðri og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótist fram á slíkum hraða að erfitt er að komast undan á hlaupum.

Margrét Kristín Pálsdóttir lögreglustjóri segir einnig að fyrirtæki þurfi að tryggja að öryggisáætlanir séu virkar og taki mið af hættu vegna mengunar. Þau beri ábyrgð á starfsfólki og gestum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×