Innlent

Flestir á­nægðir með Krist­rúnu en fæstir Ingu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Inga Sæland, félgas- og húsnæðismálaráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Inga Sæland, félgas- og húsnæðismálaráðherra. Samsett/Vilhelm

Landsmenn eru helst ánægðir með störf Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Fæstir eru ánægðir með störf Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Í nýrri könnun Gallup, sem RÚV greindi frá, sýnir að 62,5 prósent landsmanna séu ánægðir með störf Kristrúnar en rétt rúmlega 22 prósent eru óánægðir með forsætisráðherrann. Þar á eftir koma tveir aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Alma Möller, heilbrigðisráðherra. Um 45 prósent eru ánægð með Jóhann Pál og tæplega 48 prósent eru ánægðir með Ölmu.

Í þremur neðstu sætum listans sitja ráðherrar Flokks fólksins, Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Um 46,6 prósent þátttakenda eru óánægðir með störf Ingu Sæland sem ráðherra á meðan 29,4 prósent eru ánægðir. Þá eru 31 prósent óánægt með Guðmund Inga og hans störf en önnur 31 prósent eru ánægð. Tæp fjörutíu prósent sögðust hvorki ánægð né óánægð.

25,8 prósent þátttakenda eru óánægðir með innviðaráðherrann Eyjólf en tæp 29 prósent ánægð.

 Ráðherrar Viðreisnar sitja á miðjum listanum en Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra er í fjórða sæti og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra í því fimmta. Þar á eftir er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og svo Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.

Þátttakendur telja Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hafa staðið sig verst af samflokksmönnum og er hann í áttunda sæti listans þar sem 35 prósent eru ánægð með hans störf.

Vert er að taka fram að þingmönnum er raðað upp á listann eftir meðaltali og fer því eftir hversu margir eru ánægðir og hve margir eru óánægðir með störf ráðherrans hvar hann situr á lista skoðanakönnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×