Fótbolti

Diogo Jota lést í bíl­slysi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Diogo Jota er látinn.
Diogo Jota er látinn. Jacques Feeney/Offside/Offside via Getty Images

Diogo Jota, leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, er látinn eftir að hafa lent í bílslysi í nótt á Spáni. Bróðir hans var með honum í bílnum og lést einnig. 

Spænski miðillinn Marca greinir frá. og lögreglan á Spáni hefur staðfest að bræðurnir séu látnir. 

Hinn 28 ára gamli Jota var á ferð með bróður sínum André, 26 ára gömlum leikmanni Penafiel í heimalandi þeirra Portúgal.

Slysið átti sér stað við frárein á A-52 þjóðveginum í Zamora héraðinu á Spáni, rétt norðan við Portúgal. 

Lögreglan í héraðinu segir að kviknað hafi í bílnum og slökkvilið mætt á staðinn. Samkvæmt Marca varð bíllinn alelda og eldurinn dreifði sér í nærliggjandi sinu.

Spænski miðillinn AS segir atvikið hafa átt sér stað um hálf eitt í nótt, að staðartíma. Lamborghini bíllinn sem þeir keyrðu hafi runnið út af veginum þegar dekk sprakk við framúrakstur.

Lögregla, sjúkra- og slökkvilið hafi mætt á svæðið en ekki getað komið í veg fyrir að bræðurnir létust á staðnum.

Nýgiftur og lætur eftir sig þrjú börn

Diogo Jota giftist eiginkonu sinni Rute Cardoso fyrir aðeins tíu dögum síðan og lætur eftir sig þrjú börn, fædd árin 2021, 2023 og 2024. 

Hann birti færslu á Instagram fyrir minna en sólarhring síðan þar sem hann sýndi frá brúðkaupinu sem fór fram í Porto í Portúgal þann 22. júní síðastliðinn. 

Englandsmeistarinn sem vann Þjóðadeildina

Diogo Jota var leikmaður Liverpool og vann sinn þriðja titil með félaginu þegar hann varð Englandsmeistari í vor, eftir að hafa unnið bæði FA og deildabikarinn áður. Á tíma sínum með Liverpool lék hann alls 182 leiki, skoraði 65 mörk og gaf 26 stoðsendingar.

Diogo Jota og Darwin Nunez handléku Englandsmeistaratitilinn í lok maí. Liverpool FC/Liverpool FC via Getty Images

Jota var portúgalskur landsliðsmaður og vann Þjóðadeildina í síðasta mánuði. Alls lék hann 49 landsleiki fyrir Portúgal og skoraði 14 mörk.

Síðasti leikur sem Jota spilar var úrslitaleikur Þjóðadeildarinnar. Maja Hitij - UEFA/UEFA via Getty Images

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×