Íslenski boltinn

Sjáðu neglur Arons og ó­trú­legt skallamark þess sænska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framarar fagna sigrinum á KR-ingum.
Framarar fagna sigrinum á KR-ingum. vísir/guðmundur þórlaugarson

Fram lyfti sér upp í 4. sæti Bestu deildar karla með 2-3 sigri á KR í Laugardalnum í gær. Svíinn Jakob Byström skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik í bláa búningnum.

Byström kom Fram yfir á 17. mínútu þegar hann afgreiddi fyrirgjöf Haraldar Einars Ásgrímssonar í netið. Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, jafnaði með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu fjórum mínútum síðar.

Á 23. mínútu kom Byström Fram aftur yfir með laglegum skalla eftir sendingu frá Simon Tibbling. Tveimur mínútum síðar átti Tibbling sendingu inn fyrir vörn KR á Vuk Oskar Dimitrijevic sem skoraði sitt annað mark. Framarar höfðu þá skorað þrjú mörk á átta mínútna kafla.

Aron minnkaði muninn með öðru glæsimarki á 69. mínútu en nær komust KR-ingar ekki og töpuðu þar með sínum þriðja leik í röð í deild og bikar.

Finnur Tómas Pálmason, varnarmaður KR, var rekinn af velli þegar fimm mínútur voru til leiksloka fyrir að hrinda Guðmundi Magnússyni.

Klippa: KR 2-3 Fram

Fram er sem fyrr segir í 4. sæti deildarinnar með tólf stig. KR er í 5. sætinu með tíu stig. 

Mörkin og rauða spjaldið úr leiknum á AVIS-vellinum í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×