Erlent

Borgar­stjóri í Banda­ríkjunum hand­tekinn vegna mót­mæla

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ras J. Baraka, borgarstjóri Newark, mótmælir fyrir utan Delaney Hall.
Ras J. Baraka, borgarstjóri Newark, mótmælir fyrir utan Delaney Hall. AP

Borgarstjóri í Bandaríkjunum var handtekinn af alríkisembættismönnum á mótmælum. Hann var að mótmæla opnun nýrrar varðhaldsstöðvar fyrir innflytjendur í borginni sinni.

Ras J. Baraka, borgarstjóri Newark í New Jersey, var forsprakki mótmælanna fyrir utan Delaney Hall en þar á að vista allt að þúsund innflytjendur. Yfirvöld í Newark segja GEO Group, eigendur varðhaldsstöðvarinnar, brjóta lög borgarinnar þar sem þeir höfðu ekki tilskyld leyfi.

Baraka hóf mótmælin á þriðjudag og mætti aftur á miðvikudag og föstudag þar sem hann bað um aðgang að byggingunni.

Alina Habba, lögfræðingur Donalds Trump og bráðabirgða saksóknari í New Jersey greindi frá handtöku Baraka á samfélagsmiðlum. Þar sagði Habba Baraka hafa farið inn á lóðina í leyfisleysi og hundsað skipanir lögreglumanna á svæðinu.

„Hann kaus sjálfur að lítilsvirða lögin. Það gengur ekki í þessu fylki. Hann hefur verið færður í gæsluvarðhald. ENGINN ER YFIR LÖGIN HAFINN,“ skrifar Habba.

Nálægð flugvallar skipti máli

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta gerði fimmtán ára samning upp á einn milljarð dollara, rúmir 130 milljarðar íslenskra króna, við GEO Group um að breyta Delaney Hall í varðhaldsstöð. Umfjöllun NYT segir nálægð byggingarinnar við stóran flugvöll lýsa áætlunum ríkisstjórnarinnar að auka brottflutning innflytjenda á norðaustur-svæði Bandaríkjanna.

Frá valdatöku Trumps hefur hann sent ótalmarga innflytjendur í Bandaríkjunum úr landi og margir þeirra verið sendir í fangelsi til El Salvador. Meðal þeirra er Abrego Garcia sem var ranglega sendur úr landi. Trump segist geta komið honum aftur til Bandaríkjanna, en ætli ekki að gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×